Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjárhagslegur gróði í Ischgl ofar heilsu skíðafólks

23.09.2020 - 20:02
Mynd: EPA / EPA
Fjögur skaðabótamál hafa verið höfðuð gegn austurrískum stjórnvöldum vegna slælegra viðbragða við COVID-19 smitum á skíðasvæðinu Ischgl í Tyrol. Lögmaður austurrískra neytendasamtaka segir ljóst að fjárhagslegur gróði hafi verið settur ofar heilsu skíðafólksins.

Farið er fram á skaðabætur sem samsvara allt að sextán milljónum íslenskra króna í hverju máli, að því er fram kom á blaðamannafundi austurrískra neytendasamtaka í morgun. Á fundinum sagði Peter Kolba, framkvæmdastjóri Verbraucherschutzverein, austurrískra neytendasamtaka, að fólk frá 45 ríkjum hafi verið á skíðum í Ischgl á þessum tíma. Um 6.000 þeirra hafi leitað til samtakanna.

Vilja ná sáttum við stjórnvöld utan dómsala

Fleiri mál verða höfðuð á næstu dögum og vikum. Lögmaður samtakanna, Alexander Klauser, segir í samtali við fréttastofu að æskilegast sé þó að leysa málin utan dómsala. „Vonandi fallast austurrísk stjórnvöld á það að setjast niður með okkur og ræða málin. Þau hafa ekki viljað það hingað til,“ segir hann.

Fjöldi skíðafólksins er ekki með tryggingar til að leggja í eigin málsókn og ef samningaviðræður við yfirvöld bera ekki árangur verður ráðist í hópmálsókn fyrir þann hóp. Klauser segir mjög dýrt að standa í hópmálsókn og að slíkt þurfi að fjármagna. Það verði gert ef austurrísk yfirvöld gefi sig ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RUV

 

Íslenskt skíðafólk er meðal þeirra sem hafa leitað til samtakanna en mál þeirra eru ekki þau sem tilkynnt var um í morgun. Lögmaðurinn segir að þau mál séu í ferli.

Leyfðu nýjum hópum að koma á skíði þrátt fyrir smit

Það voru íslensk yfirvöld sem fyrst skilgreindu Ischgl sem hættusvæði. Það gerðu þau fimmtudaginn 5. mars, eftir að íslenskt skíðafólk kom heim frá Ischgl, sumt hvert smitað af COVID-19. Klauser segir að nýir hópar komi oftast á skíðasvæðin á laugardögum og það hafi því verið kjörið tækifæri fyrir yfirvöld að gefa út viðvaranir föstudaginn 6. mars. Það var þó ekki fyrr en föstudaginn 13. mars sem gripið var til víðtækra aðgerða. Fulltrúar neytendasamtakanna telja að ef gripið hefði verið inn í fyrr, þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir veikindi margra. 

Skíðafólkið vill afsökunarbeiðni frá yfirvöldum

Klauser segir alveg ljóst að yfirvöld hafi vitað að smit væru farin að breiðast út í Ischgl í lok febrúar, en hafi ekki brugðist við og lokað og það sé ámælisvert. Hann telur að yfirvöld hafi ekki viljað stofna skíðavertíðinni í hættu. „Yfirvöld settu efnahagslegan gróða ofar öryggi skíðafólksins,“ segir hann.

Eitt málanna sem greint var frá í dag er fyrir hönd aðstandenda skíðamanns sem lést úr sjúkdómnum. Klauser segir að allt skíðafólkið sem hafi leitað til hans vilji afsökunarbeiðni. Þau sem hlotið hafi skaða, vilji bætur.