Fimm af átta kennurum með COVID-19

23.09.2020 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjö smit hafa greinst í Tjarnarskóla í Reykjavík, litlum grunnskóla á unglingastigi þar sem kennt er í þremur bekkjum. Fimm af átta kennurum hafa greinst með smit og tveir nemendur. Þrír starfsmenn Hvassaleitisskóla hafa greinst með COVID-19 og 23 starfsmenn eru farnir í sóttkví. Fimm af sjö árgöngum Hvassaleitisskóla eru komnir í sóttkví.

Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, var á fjarfundi með kennurum að fara yfir framhaldið þegar fréttastofa hafði samband. Margrét sagði að fimm af átta kennurum sem bera upp starfið hafi greinst með veikina, þar á meðal hún. „Fyrsti fékk greiningu á laugardagskvöld.“ 

Þegar fréttastofa fékk fyrst upplýsingar um smitið í Tjarnarskóla um helgina var óvíst hvort að það hefði áhrif á starfsemi skólans. Nú er það komið í ljós. Fjórir kennarar til viðbótar greindust með smit og allir voru settir í sóttkví. „Sem betur fer er enginn alvarlega veikur,“ sagði Margrét í samtali við fréttastofu. Nemendur verða í sóttkví fram á laugardag. Ekki er búið að rekja smit nemendanna tveggja sem veiktust og því ekki víst hvernig þeir smituðust.

„Við tókum upp gamla takta og drifum okkur í fjarkennsluna,“ sagði Margrét. Skólinn fór í sjálfskipaða sóttkví í sex vikur í vor og býr að þeirri reynslu þegar kemur að kennslu. Hún hrósaði nemendum fyrir dugnað við þessar aðstæður og sagði það hafa sýnt sig að gott væri að reiða á smitrakningarteymi sóttvarnayfirvalda og gott samstarf við skóla- og frístundasvið. 

Allir bekkir nema tveir í sóttkví

Þrjú smit hafa greinst meðal starfsmanna í Hvassaleitisskóla. 23 starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví og sömuleiðis fjöldi nemenda. Þannig hafa fyrsti til fjórði bekkur og sjöundi bekkur að auki verið sendir í sóttkví fram á föstudagskvöld vegna veikindanna sem hafa greinst. 

Skólastjóri Hvassaleitisskóla upplýsti foreldra og forráðamenn um þetta með bréfi í gær og tiltók að verið væri að skipuleggja starfið fram undan og finna lausnir. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi