„Eru þau mögulega að makast við Íslandsstrendur?“

23.09.2020 - 14:12
Mynd: RÚV / Nýjasta tækni og vísindi
„Ég hef verið að rannsaka hljóðmyndun hvala, og þá sérstaklega söng hnúfubaksins sem þeir syngja á æxlunartímanum,“ segir líffræðingurinn Edda Elísabet Magnúsdóttir. „Við komumst að því fyrir tilviljun að þeir syngja við strendur Íslands á veturna.“

Rætt við Eddu Elísabet í þættinum Nýjasta tækni og vísindi sem hóf göngu sína aftur í síðustu viku eftir 16 ára hlé. Þau uppgötvuðu söngtilburði hnúfabakana þegar sett var hljóðupptökutæki í sjóinn við norðurströnd Íslands því þar var vitað um töluverða hvalagegnd á sumrin. „Svo allt í einu yfir háveturinn þegar ég er að fara yfir upptökurnar rekst ég að söngva frá hnúfubaknum.“ Þetta vakti forvitni Eddu um hvort þetta væri algengt. „Eftir þrjú ár af upptökum sáum við að alltaf á sama tíma, frá janúar fram í mars, þá syngja þeir. Þetta var algjörlega á skjön við það sem við töldum okkur vita um þessa hvali.“

Edda Elísabet og teymi hennar komust þarna á snoðir um miklu meiri sveigjanleika í atferli og farhegðun hnúfubaksins en áður hafði verið talið. „Sem við töldum að hefðu mjög fasta rútínu yfir árið, sumrin og fram á haust þá borða þeir, svo kemur árstíðarskipti og þeir fara suður í höf. En svo er það alls ekki þannig. Þetta vakti þær spurningar hvaða hvalir eru þetta? Hverjir eru þessir söngvarar?“ Vitað hafi verið að karldýrin syngi til að laða að sér maka. „En af hverju hér við Ísland? Ég vildi komast að því hvort þetta væru hvalir sem við hefðum séð áður, og hvort þetta væru kynþroska dýr, og mögulega kvendýr. Eru þau mögulega að makast við Íslandsstrendur? Og ef svo er hvaða tilgangi þjónar það fyrir tegundina?“

Rætt var við Eddu Elísabetu Magnúsdóttur í þættinum Nýjasta tækni og vísindi. Hægt er að horfa á þáttinn í heild í spilara RÚV.

davidrg's picture
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi