Erfitt að yfirstíga eigin fullkomnunaráráttu

Mynd: RÚV / RÚV

Erfitt að yfirstíga eigin fullkomnunaráráttu

23.09.2020 - 11:26

Höfundar

Gyða Valtýsdóttir, handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs, heldur tónleika í Hörpu í kvöld þar sem hún flytur verk af plötunum Epicycles og Epicycles II.

Gyða Valtýsdóttir sellóleikari og tónskáld hefur á undanförnum fjórum árum gefið út þrjár plötur undir eigin nafni. Sý nýjasta heitir Epicycles II og kom út í ágúst og er systurverk samnefndrar plötu sem kom út 2016.

„Ég var á báðum áttum hvort þessi ætti að heita Epicycle og vera alltaf sett í samhengi við hina plötuna,“ segir Gyða. „Þær eiga það hins vegar sameiginlegt vera eins og sagt er á ensku „genre fluid“. Fyrir mér er þetta einhver heimur sem er erfitt að skilgreina.“  

Á fyrri plötunni flutti Gyða eigin útsetningar á verkum tónskálda á borð við Schumann, Schubert og Hildegaard von Bingen. Áður hafði hún gefið út efni með hljómsveitinni Múm og í samstarfi við listamenn eins og Ragnar Kjartansson en Epicycles var fyrsta sólóplata hennar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Eftir að ég lauk námi í sellóleik var ég svolítið týnd, eða vissi ekki hvert ég ætti að stefna. Ég var svo heppinn að fá mörg verkefni og sagði já við næstum öllu. Epicycle varð eiginlega til óvart meðfram öðrum verkefnum. Platan var unnin að miklu leyti í spuna í hljóðverinu á einu til tveimur árum. Eftir klassískt tónlistarnám er maður orðinn meistari í dómhörku og fullkomnunaráráttu, ég þurfti að minnsta kosti að takast á við það. En platan var tekin upp og mixuð upp analog svo ég gæti ekki átt við hana. Ég þurfti að gera hana ófullkomna til að koma henni út. Ég man að það var mjög erfitt að láta hana flakka.“

Á nýju plötunni flytur hún hins vegar frumsamin verk eftir íslensk tónskáld; þau Önnu Þorvalds, Kjartan Sveinsson, Maríu Huld Markan, Daníel Bjarnason, Skúla Sverrisson. Ólöfu Arnalds, Úlf Hansson og Jónsa í Sigur rós.    

„Þetta er fólk sem er búið að vera í lífi mínum síðastliðin 20 ár. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir á hvað þetta er persónuleg plata, líka bara um mína sögu og fortíð. Þannig að mér þykir einstaklega vænt um hana líka fyrir það.“  

Gyða býr á Íslandi og í New York og hefur verið vestanhafs síðan Covid-faraldurinn skall á síðasta vetur. 

„Ég tók síðustu vél til New York, tók ákvörðun um að vera með fjölskyldunni minni þar. Það var rosalega skrítið fyrstu vikurnar, New York í sérstaklega slæmu ástandi og við fórum ekki út úr húsi. En eftir einhverjar vikur var þetta orðið hálfgert frí, einhver draumur sem ég vissi ekki að ég ætti, að stoppa alveg í smá tíma. Ég er byrjuð á nýrri plötu með minni eigin tónlist. Það er lítið að gera í vetur, nægur tími til að vinna þannig að ég ætla bara að nýta mér það.“  

 Rætt var við Gyðu í Menningunni. Horfa má á viðtalið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Álagið í múm bar leikgleðina ofurliði

Tónlist

Gyða Valtýsdóttir fær verðlaun Norðurlandaráðs