Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Ekki markmið okkar að skera samfélagið inn að beini"

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Ný bæjarstjórn á Akureyri sem kynnt var í gær hefur gert með sér samstarfssáttmála um aðgerðir til að rétta af mikinn hallarekstur bæjarins. Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar og Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti VG voru gestir á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.

Ærið verkefni framundan

Allt stefnir í fordæmalausan hallarekstur Akureyrarbæjar. Halli aðalsjóðs bæjarins gæti orðið allt að þrír milljarðar króna en árshlutauppgjör fyrstu sex mánaða ársins sýnir þrettán hundruð milljóna króna tap. Í stjórnarsáttmála nýrrar bæjarstjórnar kemur fram að grípa þurfi til rótækra aðgerða. Meðal þeirra eru sala húsnæðis, endurskoðun launa æðstu embættismanna og hækkun gjaldskrár. Í samstarfssáttmála nýrrar stjórnar er framtíðarsýn til næstu fimm ára lögð fram. Þar segir: 

• Rekstur Akureyrarbæjar verði fjárhagslega sjálfbær og vörn verði snúið í sókn
• Akureyrarbær verði þekktur fyrir framúrskarandi skóla, lífsgæði og góða þjónustu með
áherslu á stafrænar lausnir og íbúasamráð
• Samkeppnishæfni sveitarfélagsins verði með þeim hætti að fyrirtæki og stofnanir telji
sveitarfélagið fýsilegan kost fyrir starfsemi sína, þannig að fjölbreyttum störfum fjölgi
• Staðinn verði vörður um viðkvæma hópa samfélagsins, hagsmunir barna og
ungmenna verði settir í forgang og blásið til sóknar á íbúa- og atvinnumarkaði. 

Verið að fara yfir stöðuna

Hilda Jana segir vinnu við hagræðingar þegar hafnar. „Við erum búin að halda fundi, sem sagt allir bæjarfulltrúar ásamt sviðsstjórum og fara yfir þá möguleika sem eru í stöðunni og þora bara dálítið óhikað að kasa öllum möguleikum upp í loftið. Þó það sé ekki til annars en að segja: „Þetta gerum við alls ekki." Við erum erum að reka hérna samfélag og viljum líka blása til sóknar og svo framvegis. Í þessum meirihlutasáttmála sem við höfum verið að vinna að, mest um helgina. Þar listum við upp það sem við erum búin að ákveða að við ætlum að gera en ekki hvernig við ætlum að gera það vegna þess að við erum algjörlega sammála um það að við verðum að afla gagna og greina áhrif ákvarðana. Því það er ekki markmið okkar að skera samfélagið inn að beini  bara til þess að ná því tölurnar séu okkur í hag, alls ekki," segir Hilda.

Ætla að verja viðkvæma hópa

Sóley Björk tekur í sama streng. „Fyrir það fyrsta þá snýst þetta ekki bara um niðurskurð heldur svona umbótahugsun. Það er að segja, við þurfum að nýta betur það fjármagn sem við höfum. Við höfum auðvitað helling af fjármagni. Ég get ekki sagt að við ætlum að forgangsraða verkefnum við ætlum svolítið að forgangsraða hópum. Inni í sáttmálanum þá segjum við mjög skýrt að við ætlum að standa vörð um mikilvæga þjónustu til barna, ungmenna, þeirra sem að glíma við fatlanir og annara viðkvæmari hópa, " segir Sóley.