Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dómur fellur í gróðurdeilu á Arnarnesinu

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun íbúa á Arnarnesi af kröfu nágranna hans um að klippa eða lækka tré á lóð sinni. Nágrannarnir töldu trén skerða útsýni sitt til Esjunnar og Snæfellsness. Dómurinn gerði íbúanum aftur á móti að fjarlægja nokkrar greinar sem sköguðu yfir lóðamörkin.

Deilan hófst vorið 2018 þegar tré voru tekin að laufgast.  Nágrannarnir tóku þá eftir því að trjágróður í garði íbúans við lóðamörk fasteignarinnar væri hár og þéttvaxinn. Þegar leið á vorið varð þeim ljóst að þau myndu ekki njóta útsýnisins sem þau höfðu reiknað með þegar þau keyptu fasteignina skömmu áður. Útsýnið hefði leikið lykilatriði í því að þau keyptu fasteignina því þau hefðu ætlað að sjá bæði Esjuna og Snæfellsnes.

Í góðri trú ræddu þeir við íbúann um að láta snyrta trén en án árangurs. Og því var kallaður til lögmaður sem sendi íbúanum bréf í janúar á síðasta árs þar sem nágrannarnir lýst yfir vilja sínum að tré í garði íbúans, sem stæðu við lóðamörk, yrðu fjarlægð eða tekin ofan af þeim þannig að útsýni ykist til norðurs. Þeir buðust jafnframt til að borga fyrir verkið.

Lögmaður íbúans sendi svarbréf þar sem hann taldi að þessi krafa nágrannanna fæli í sér opið samþykki fyrir því að breyta eða rífa niður tré án nokkurs rökstuðnings á hverju krafan byggðist. Engin gögn hefðu verið lögð fram um skuggavarp eða skerðingu á útsýni. Trén veittu skjól fyrir veðri og vindum og næði á pallinum. Það væri réttindi sem íbúinn mæti mikils og teldi jafnrétthá, ef ekki rétthærri en væntingar nágranna til meira útsýnis.

Lögmaður nágrannanna lagði þá fram málamiðlun en þeirri beiðni var ekki svarað.

Fyrir dómi sögðu nágrannarnir að sjónmengun vegna trjánna væri mikil.  Það hefði alltaf verið forsenda fyrir fasteignakaupunum á þessum stað að þau gæti notið útsýnis yfir Esjuna, Snæfellsjökul og Kópavogskirkju. 

Íbúinn sagði að nágrannarnir hefðu ekki verið reiðubúnir til að mætast á miðri leið. Trén væru skjól fyrir veðri og vindum og til þess fallin að auka frið hans í garði sínum. Hann sæti gjarnan úti á palli og nyti þá friðar frá öðrum lóðum í kring. Þá væri hann líka mikill náttúruunnandi og nyti þess að hafa gömul og glæsileg tré í garði sínum.

Bæði íbúinn og nágrannarnir lögðu fram álit tveggja skrúðgarðyrkjumeistara en dómarinn í málinu taldi gildi þeirra og þýðingu takmörkuð. Dómarinn kynnti sér jafnframt umhverfið í vettvangsgöngu og sagði eftir hana að Arnarnesið væri gróið íbúðarhverfi í þéttbýli. Ekki yrði séð að lóð nágrannanna væri eiginleg útsýnislóð þar sem vænta mætti óskerts útsýnis.  Raunar væru hávaxin tré verulega algeng á Arnarnesinu og og svæðið hefði þróast þannig að þau væru á víð og dreif og takmörkuðu útsýni.  Nágrannarnir hefðu raunar greint frá því sjálf að þau hefðu gert athugasemdir við fleiri nágranna vegna hæðar trjáa.

Féllst dómurinn því ekki á aðalkröfu nágrannanna að íbúanum yrði gert að klippa eða lækka umrædd tré. Aftur á móti taldi dómarinn rétt að íbúanum yrði gert að fjarlægja nokkrar greinar af trjám sem sköguðu yfir lóðamörkin. Fékk íbúinn þriggja mánaða frest til þess. Þá var nágrönnunum gert að greiða íbúanum 800 þúsund krónur í málskostnað.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV