Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Deilur innan LIVE vegna hlutafjárútboðs Icelandair

Mynd: RÚV / RÚV
Ágreiningur er innan stjórnar lífeyrissjóðs verzlunarmanna út af þeirri ákvörðun að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Formaður VR lýsti í dag yfir vantrausti á varaformann stjórnar sjóðsins. Fjármálaeftirlit Seðlabankans ætlar að skoða aðkomu lífeyrissjóðanna að útboðinu.

„Það sem við höfum haft áhyggjur af er það að sjálfstæði einstakra stjórnarmanna væri ekki nægilega vel tryggt. Það væri ekki nægilega vel tryggt að þeir sem eru í stjórn séu að taka ákvarðanir út frá hagsmunum sjóðsfélaga en ekki út frá hagsmunum einstakra fyrirtækja eða vinnudeilum. Þannig að við viljum skerpa á því,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem áður var stærsti hluthafi Icelandair, tók ekki þátt í hlutafjárútboði félagsins í síðustu viku. Atkvæði stjórnar féllu jafnt þar sem Stefán Sveinbjörnsson stjórnarformaður og Guðrún Hafsteinsdóttir varaformaður stjórnar voru á öndverðum meiði.

„Ég taldi að spá félagsins í útboðsgögnum væri hógvær og þar væri hófleg bjartsýni. Að því sögðu þá taldi ég rétt að við myndum halda eignarhluti okkar í félaginu. Til þess að ná góðri ávöxtun þarftu stundum að taka áhættu. Og ég var tilbúin til þess í þessu tiltekna máli,“ segir Guðrún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðrún Hafsteinsdóttir.

Finnst framkoman fyrir neðan allar hellur

Guðrún sagði við Fréttablaðið fyrir helgi að hún furðaði sig á afstöðu fulltrúa launþega í stjórn sjóðsins að taka ekki þátt í útboðinu. Formaður VR gagnrýndi Guðrúnu í pistli í dag vegna ummælanna sem hann segir óvægin.

„Hún telur annarleg sjónarmið hafi staðið að baki þeirri ákvörðun að taka ekki þátt í útboði Icelandair, einhver önnur heldur en fagleg. Mér finnst þessi framkoma fyrir neðan allar hellur. Ég reikna bara með því að Fjármálaeftirlitið taki stöðu hennar og ummæli til skoðunar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.

Ragnar segist lengi hafa verið á þeirri skoðun að hvorki atvinnurekendur né fulltrúar verkalýðshreyfinga eigi að koma að stjórnum lífeyrissjóða.

„Það eiga sjóðsfélagar sjálfir að gera. Raunverulegir eigendur þessara peninga, sem eru best til þess fallnir að taka ákvörðun um hvernig þeim er ráðstafað og hverjir stýra síðan sjóðunum,“ segir Ragnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson.

Ósanngjarnt að fara í persónulega gagnrýni

En telur Guðrún stjórn sjóðsins hafa farið gegn hagsmunum sjóðsfélaga að taka ekki þátt í útboðinu?

„Sko, við skulum ekki gleyma því að nokkur þúsund starfsmenn Icelandair eru sjóðsfélagar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Í þessu máli voru örugglega allir að gæta hagsmuna, þó það hafi verið skiptar skoðanir,“ segir Guðrún.

Ragnar Þór sagðist í dag vantreysta Guðrúnu til setu í stjórn lífeyrissjóðsins. 

„Ég held að Guðrún Hafsteinsdóttir ætti að snúa sér að því sem hún gerir best, og það er að framleiða ís,“ segir Ragnar, en Guðrún og fjölskylda hennar eru eigendur Kjöríss.

„Manni finnst það auðvitað ósanngjarnt að persóna mín sé dregin inn í þetta mál með þessum hætti og fyrirtæki mín og minnar fjölskyldu,“ segir Guðrún.