Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dapurlegt að börn komist ekki að í tónlistarnámi

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV/Landinn
Alls eru 219 á biðlista eftir að komast að í tónlistarnámi í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. 171 grunnskólanemandi er á biðlistanum, en mest aðsókn er í að læra á píanó og gítar.

Farið var yfir þróun biðlista skólans á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar í dag. Eiríkur Stephensen skólastjóri Tónlistarskólans kynnti þá skýrslu um þróun, biðlista og framtíðarsýn skólans. Þar kemur meðal annars fram að þegar horft er á grunnskólana níu í bænum séu 6-18% nemenda við nám í tónlistarskólanum.

Á meðan er 171 grunnskólanemandi sem bíður eftir að komast að í námi, en 163 þeirra eru með píanó eða gítar í fyrsta val. Heildarbiðlisti er 219 nemendur en þar eru einstaklingar frá eins árs og upp í 85 ára. 

Fulltrúi Viðreisnar í fræðsluráði lagði fram bókun í kjölfar á kynningu skýrslunnar þar sem lýst er yfir áhyggjum af því að börn í Hafnarfirði missi af því að læra tónlist.

„Það er dapurlegt að heyra að í jafn miklum tónlistar-og menningarbæ og Hafnarfirði séu jafn margir áhugasamir nemendur um tónlist sem komast ekki að í tónlistarnám,“ segir í bókun fulltrúa Viðreisnar, sem fulltrúar Miðflokksins og Samfylkingarinnar tóku undir. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV