Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Aðalmeðferð í „örsláturmálinu“

23.09.2020 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Í dag var í Héraðsdómi Norðurlands vestra aðalmeðferð í máli gegn Sveini Margeirssyni þar sem hann er ákærður fyrir brot á lögum um slátrun og sláturafurðir. Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra kærði Svein fyrir sölu og dreifingu á fersku lambakjöti, haustið 2018, af gripum sem slátrað hafi verið utan löggilts sláturhúss.

Kjötið var selt á bændamarkaði á Hofsósi af sex lömbum sem slátrað var, í svokallaðri örslátrun, á bænum Birkihlíð í Skagafirði. Sveinn hefur sagt að hann telji engin lög hafa verið brotin með sölunni. Kjötið á markaðnum hafi verið örverumælt, merkt og fylgt frá upphafi til enda.

Talsverður áhugi á málinu

Nokkur fjöldi var viðstaddur aðalmeðferð málsins í dag, eins og þegar það var tekið fyrir í nóvember 2019. Þar á meðal var Þröstur Heiðar Erlingsson, bóndi í Birkihlíð. „Það fengu ekki nema fimm að fara inn, restin var fyrir utan,“ segir Þröstur.

Kjötsalan á Hofsósi kveikjan að nýju tilraunaverkefni

Hann er einn 35 bænda sem nú taka þátt í tilraunaverkefni um heimaslátrun sem hófst í haust á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landssamtaka sauðfjárbænda og Matvælastofnunar. Þar á að leita leiða til að sauðfjárbændur geti selt og markaðssett kjöt sem þeir slátra heima og uppfyllt um leið allar viðeigandi reglur. Þröstur segir engan vafa leika á því að kjötsalan á bændamarkaðnum á Hofsósi í september 2018 hafi orðið kveikjan að þessu tilraunaverkefni.