Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ábendingar „tengdust stöðum fyrir utan höfuðborgina“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Egypska fjölskyldan sem til stóð að vísa úr landi en hefur farið huldu höfði síðan í síðustu viku er enn ófundin. Þetta segir Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn stoðdeildar Ríkislögreglustjóra. Aðspurður segir Guðbrandur að meðal annars hafi borist upplýsingar, sem gefi til kynna að fjölskyldan sé ekki á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill þó ekki gefa upp hvar verið sé að leita að fjölskyldunni.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu á mánudag þar sem óskað var eftir upplýsingum um ferðir og dvalarstað Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi sem vísa átti úr landi í síðustu viku. Þegar til stóð að sækja þau reyndust þau ekki vera á fyrir fram ákveðnum stað og þau hafa ekki fundist síðan. Stoðdeildin biður nú þá sem geta gefið upplýsingar um ferðir fjölskyldunnar eða vita hvar hún er niðurkomin um að hafa samband.

Guðbrandur segir að þótt fjölskyldan sé ófundin gangi leitin vel.

„Við erum bara að vinna út frá vísbendingum og upplýsingum,“ segir hann. 

Hafa ábendingar hjálpað ykkur?

„Já þær hafa hjálpað. En það tekur alltaf tíma að vinna úr þeim og fara eftir þeim. Þannig að þetta tekur allt sinn tíma.“

Eru enn að berast ábendingar?

„Já. Það eru enn að berast ábendingar.“ 

Einlæg ósk

Hafið þið grun um hvar fjölskyldan er niðurkomin eða hver gæti hafa hjálpað henni?

„Það eru kannski upplýsingar sem við viljum ekki láta frá okkur eins og er.“ 

Hafið þið farið víða að leita að henni?

„Nei við höfum nú ekki farið víða. En við höfum kannað fjölmargar ábendingar og vísbendingar. En við höfum kannski ekki farið víða.“ 

Einskorðast leitin við höfuðborgarsvæðið, eða er möguleiki á að fjölskyldan hafi farið út á land?

„Það voru upplýsingar sem okkur bárust sem tengdust stöðum fyrir utan höfuðborgina. En við erum í sjálfu sér ekki að gefa upplýsingar um hvar okkar leit er núna.“

En er sem sagt möguleiki á að hún sé ekki á höfuðborgarsvæðinu?

„Eins og ég segi, við erum að vinna eftir ákveðnum upplýsingum og vísbendingum sem við viljum bara klára áður en þessar upplýsingar fara í loftið.“

Gerir þú ráð fyrir að fjölskyldan finnist í dag eða á allra næstu dögum?

„Vonandi. Það er það sem við viljum. Við viljum ná sambandi við fjölskylduna sem fyrst til þess að geta hafið samtalið við þau aftur. Það er okkar einlæga ósk,“ segir Guðbrandur.