Víða greinast fleiri tilfelli daglega nú en í vor

22.09.2020 - 19:30
Mynd: EPA / EPA
Í yfir tuttugu Evrópuríkjum greinast fleiri kórónuveirutilfelli daglega nú en í vor. Tæplega tvær milljónir greindust með kórónuveirusmit á heimsvísu í síðustu viku sem er mesti fjöldi á einni viku síðan faraldurinn braust út. Flest voru smitin í Bandaríkjunum, Indlandi og Brasilíu.

Tilfellum hefur fjölgað hratt í Bretlandi á síðustu vikum og voru nýjar aðgerðir kynntar þar í dag sem eiga að sporna við útbreiðslu veirunnar. Krám og veitingastöðum er gert að loka klukkan tíu, fólk verður að nota grímu í auknum mæli, mælst er til þess að allir vinni heima sem geti það og ekki mega fleiri en fimmtán koma saman.

Þrátt fyrir að útgöngubann sé ekki hluti af þeim aðgerðum sem Johnson kynnti á breska þinginu í dag er svæðisbundið útgöngubann enn í gildi víða, til að mynda í Leicester þar sem smitum fjölgaði mikið í sumar.

Hertar takmarkanir hafa víða tekið gildi á síðustu vikum samhliða fjölgun smita, til að mynda í Danmörku. Þar mega veitinga- og öldurhús ekki hafa opið lengur en til tíu á kvöldin og þá mega mest 50 koma saman.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi