Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Við gerum ráð fyrir því að þau hafi fengið aðstoð“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur fengið nokkrar ábendingar um hvar egypska fjölskyldan sem til stendur að senda úr landi er niðurkomin. Talið er öruggt að einhver hafi skotið skjólshúsi yfir fjölskylduna. Töluverð vinna fer nú fram hjá stoðdeildinni, við að leita að fjölskyldunni.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem óskað var eftir upplýsingum um ferðir og dvalarstað Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi sem vísa átti úr landi í síðustu viku. Þegar til stóð að sækja þau reyndust þau ekki vera á fyrir fram ákveðnum stað og þau hafa ekki fundist síðan. Stoðdeildin biður nú þá sem geta gefið upplýsingar um ferðir fjölskyldunnar eða vita hvar hún er niðurkomin um að hafa samband.

Ekkert fast í hendi

Guðbrandur Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn stoðdeildarinnar, segir að nokkrir tölvupóstar hafi þegar borist.

„Þetta kom náttúrulega til fjölmiðla í gærkvöldi og dagurinn er svona rétt að hefjast þannig að þetta er ekkert of mikill fjöldi. En jú jú, það hafa borist einhverjar ábendingar.“

Hafið þið einhverja hugmynd um hvar fjölskyldan er niðurkomin?

„Það er voðalega erfitt að segja. Það er bara verið að vinna úr þessum vísbendingum og upplýsingum sem við höfum hingað til haft og úr þeim sem eru að berast. En ég bara get ég ekki tjáð mig um það akkúrat núna. En vonandi skýrist það þegar líður á daginn.“

Er ekki líklegt að einhver hafi skotið skjólshúsi yfir fjölskylduna?

„Það verður að segjast að það liggur í augum uppi þar sem þetta er fjölskylda sem er hér á vegum ríkisins á þeim tíma sem hún dvelur hérna að bíða eftir sinni niðurstöðu. Þannig að við gerum ráð fyrir því að þau hafi fengið aðstoð við þetta. En við höfum samt ekkert fast í hendi með það.“

Hvað verður gert þegar þau finnast?

„Gagnvart framkvæmdinni, eins og margoft hefur komið fram, þá er hún á okkur borði og við munum bara klára hana þegar fjölskyldan kemur til okkar aftur. En gagnvart fjölskyldunni, þá verður hún bara á viðunandi dvalarstað í íbúð eða húsi sem hentar þeim.“

„Bara framkvæmdaraðili“

Í gær lagði lögmaður fjölskyldunnar fram stefnu og beiðni um flýtimeðferð fyrir fjölskylduna í Héraðsdómi Reykjavíkur. Guðbrandur segir að það breyti engu varðandi vinnu stoðdeildarinnar.

„Nei, öll stjórnsýsluvinnsla og ákvarðanir eru eitthvað sem er á öðrum vettvangi. Við erum ekki hluti af þessu ákvörðunarferli eða eigum nokkurn þátt í að leggja okkar að mörkum þar. Þannig að við erum bara framkvæmdaraðili þegar þessi ákvörðun er tekin. Þannig að af okkar hálfu munum við bara klára þessa framkvæmd þangað til eða ef eitthvað gerist varðandi stjórnsýslustigið eða dómstigið, að þetta sé tekið úr okkar höndum, þá hættum við náttúrulega. En að öðru leyti komum við ekkert nálægt þessu.“

Er stór hópur frá ykkur að leita eða eruð þið að leggja mikla vinnu í þetta?

„Já við verðum náttúrulega að leggja einhverja vinnu í þetta til þess að geta klárað okkar verkefni. En við erum náttúrulega með starfsmenn í þessu sem eru með þetta verkefni á sínum herðum. Og það er þá aðallega til þess að vinna úr þessum vísbendingum og ábendingum sem við höfum og elta þær uppi.“ 

Fer sú vinna mest fram í húsi hjá ykkur eða eru menn hreinlega úti á vettvangi að leita?

„Þetta er bæði og. Við þurfum að flokka þær upplýsingar sem okkur berast og reyna að greiða úr því sem stenst og því sem ekki stenst. Þannig að þetta er bæði og.“

Guðbrandur segir að eftir að kallað var eftir upplýsingum í gær hafi þónokkuð af pósti borist, þar sem augljóslega sé verið að reyna að villa um fyrir lögreglunni.

„Það tefur alla vinnu en þetta er alltaf óumflýjanlegur hluti af þessu ferli,“ segir Guðbrandur.