Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veiran herjar á skóla víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu

22.09.2020 - 11:40
Valhúsaskóli, FÁ og Ingunnarskóli
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Allir nemendur Valhúsaskóla voru sendir heim í morgun eftir að smit greindist hjá nemanda á unglingastigi í gær. Ólína Thoroddsen, skólastjóri grunnskóla Seltjarnarness, sagði við fréttastofu að skólastjórn hafi verið tilkynnt um smitið rétt fyrir miðnætti í gær.

Því var ákveðið að senda alla heim í morgun meðan unnið er að frekari smitrakningu. Ólína segir frekari upplýsinga til nemenda og starfsfólks að vænta í dag í samráði við smitrakningateymi Almannavarna.

Allt starfsfólk FÁ í sóttkví í dag

Öllum starfsmönnum Fjölbrautaskólans við Ármúla var í dag sagt að fara í sóttkví, um hundrað manns.

Tveir starfsmenn hafa greinst smitaðir, einn kennari og einn stjórnandi, segir Magnús Ingvason, skólameistari FÁ. Margir nota sameiginlega kennarastofu og því hafi verið ákveðið að taka enga áhættu og senda alla starfsmenn í sóttkví. Þrír nemendur hafa greinst með COVID-19 í skólanum.

„Hvað varðar kennslu hefur þetta ekki mikil áhrif þar sem við tókum ákvörðun um að hafa fjarkennslu þessa viku.“ Nemendur hafa verið í staðarnámi hingað til. „En auðvitað er þetta kannski ekki gott að þurfa að senda svona marga í sóttkví.“

2.283 eru í sóttkví á landinu og hafa ekki verið fleiri skráðir í sóttkví síðan 15. apríl þegar fyrsta bylgja var í rénun. Þann dag voru 33 innlagðir á sjúkrahús, þar af sex á gjörgæslu. Þegar faraldurinn stóð sem hæst á Íslandi var metfjöldi skráðra í sóttkví 12.532 þann 26. mars, samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins.

Smit í Hvassaleitisskóla og Ingunnarskóla

Öll börn sem sóttu frístundaheimilið Krakkakot á föstudag hafa verið send í sóttkví og einnig starfsmenn frístundaheimilisins. Krakkakot er frístund fyrir krakka í 1. til 4. bekk í Hvassaleitisskóla í Reykjavík. Fréttablaðið greindi frá þessu. Skólinn frestaði skólasetningu í haust vegna starfsmanns sem greindist smitaður.

Þá er sjöundi bekkur Ingunnarskóla í Grafarholti einnig kominn í sóttkví vegna smits.

Í gær var greint frá því að leikskólinn Akrar í Garðabæ væri lokaður næstu daga sem og ein deild leikskólans Ása í Garðabæ eftir að smit hefðu komið upp hjá starfsmönnum. Ein deild Ægisborgar er í sóttkví, sjöundi bekkur í Melaskóla og 57 nemendur og sjö starfsmenn í Vesturbæjarskóla hafa verið sendir í sóttkví fram á fimmtudag.