Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Um 170 þurftu að keyra til Reykjavíkur í sýnatöku

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Um 170 Akurnesingar sem lentu í sóttkví eftir að smitaður einstaklingur kom í líkamsræktarstöð á Akranesi þurftu að keyra til Reykjavíkur í skimun í dag. Ekki var hægt að skima hópinn á Akranesi.

Allir sem sóttu líkamsræktarstöðina á Jaðarsbökkum á Akranesi þurftu að fara í sóttkví eftir að upp komst að iðkandi sem hafði farið í ræktina þann dag væri smitaður af COVID-19. Í dag fer þessi hópur í skimun til Reykjavíkur. Ekki er í boði að fara í sýnatöku á Akranesi.

Einungis tekið á móti fólki með einkenni á Akranesi

Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, segir leitt að svo stór hópur hafi þurft að keyra suður í skimun. Einungis fólki með einkenni standi til boða að fara í sýnatöku á Akranesi.

„Heilsugæslustöðvar sjá almennt um skimun og móttöku þeirra sem eru með einkenni. Ákveðnar heilsugæslustöðvar um landið taka sýni hjá einkennalausum og Akranes fellur ekki undir það. Það er auðvitað leiðinlegt að svona stór hópur hafi þurft að fara en ekki var hægt að gera neitt í þessu tilviki“ segir hún.

Fólk í sóttkví fær boð í sýnatöku beint frá smitrakningateymi. Heilbrigðisstofnanir standa utan þess ferlis.

Sex staðir á landsbyggðinni taka á móti einkennalausum

Sem stendur geta einkennalausir einungis farið í próf á sex stöðum á landsbyggðinni. Það eru Ísafjörður, Borgarnes, Akureyri, Egilsstaðir, Höfn og Selfoss. Áður var hægt að fara í skimun í Stykkishólmi en því var svo hætt.

Jóhanna segir að til standi að bæta úr þessu.

„Það er verið að ræða að þetta muni breytast en það er ekki hægt einn, tveir og þrír. Það þarf nokkurra daga fyrirvara,“ segir Jóhanna.

196 eru nú í sóttkví á Vesturlandi og fækkar um sex á milli daga. Ellefu eru í einangrun og fjölgar um sex á milli daga.