Svíar segja Sveindísi hafa komið sér opna skjöldu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Svíar segja Sveindísi hafa komið sér opna skjöldu

22.09.2020 - 23:13
Leikmenn og þjálfari sænska kvennalandsliðsins í fótbolta vissu lítið um Sveindísi Jane Jónsdóttur og bjuggust ekki við að hún yrði í byrjunarliði Íslands í leik liðanna í undankeppni EM á Laugardalsvelli. Svíar segjast einfaldlega ekki hafa undirbúið sig nógu vel fyrir leikinn.

 

Þetta var aðeins annar landsleikur Sveindísar sem er 19 ára en hún átti frábæran leik og lagði upp jöfnunarmarkið sem Elín Metta Jensen skoraði. Löng innköst Sveindísar ollu Svíum vandræðum og eftir eitt þeirra mistókst Linu Hurtig leikmanni Svía að koma boltanum í burtu áður en Elín Metta skoraði.

Vorum ekki undirbúnar

„Við þurftum að fást við mörg svona innköst og ég klikkaði í jöfnunarmarkinu. Það svíður bölvanlega. Við vorum ekki undirbúnar fyrir þessi innköst og þau ollu okkur miklum vandræðum," sagði Hurtig og fyrirliði Svía, Caroline Seger tók undir það.

„Íslenska liðið er þekkt fyrir löng innköst en við bjuggumst ekki við að þessi leikmaður kastaði boltanum svona langt."

Þjálfari Svía bjóst ekki við að Sveindís myndi spila

Peter Geirhardsson, landsliðsþjálfari Svía sér um að kortleggja mótherja sína ásamt aðstoðarþjálfaranum. Peter viðurkennir að þar hafi honum hreinlega orðið á í undirbúningi fyrir leikinn gegn Íslandi því Sveindís kom honum í opna skjöldu. 

„Hún spilaði gegn Lettum og þar sem hún er svo ung þá bjuggumst við ekki við að hún myndi spila gegn okkur. Hún er mjög góður leikmaður og var okkur erfið, ekki aðeins í innköstunum," sagði Peter Gerhardsson, landsliðsþjálfari Svía í viðtali við Aftonbladet.

Í umsögn blaðsins um leikinn segir að hann hafi verið sænska liðinu erfiður og Íslendingar hafi haft algera yfirburði eftir að Svíar komust yfir.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Jafntefli gegn Svíum í undankeppni EM