Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segja upplýsingaóreiðu í stjórnarskrárumræðu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Félag ungra Sjálfstæðismanna opnaði í gær vefsvæði þar sem leggja á fram staðreyndir um nýja stórnarskrá lýðveldisins. Ungir sjálfstæðismenn segja upplýsingaóreiðu hafa átt sér stað og að rangfærslur hafi farið á flug í umræðu um nýja stjórnarskrá.

Í tilkynningu sem SUS sendi frá sér í gær kemur eftirfarandi fram.

„Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og annars staðar um gildandi stjórnarskrá og þær tillögur sem stjórnlagaráð lagði fram fyrir um áratug sem kölluð er „nýja stjórnarskráin“. Samtök eins og Stjórnarskrárfélagið og Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá berjast fyrir upptöku og lögfestingu tillagna stjórnlagaráðs og byggja þá baráttu að mestu á rangfærslum. Samfélagsmiðlaherferð var hleypt af stað á dögunum þar sem þekktir Íslendingar bera margar rangfærslur á borð og lögfesting „nýju stjórnarskrárinnar“ kynnt sem lausn alls þess sem teljast má pólitískt bitbein í íslensku samfélagi. Er þetta til þess fallið að afvegaleiða umræðu um stjórnarskrármál og ýta undir misskilning og upplýsingaóreiðu.“ segir í tilkynningunni. 

Á vef staðreyndavaktarinnar eru spurningar og svör við spurningum um stjórnarskrána, rakin er tímalína endurskoðunarferlis stjórnarskrárinnar frá því að Stjórnlagaþingi var komið á fót árið 2009 auk þess sem meginatriði stjórnarskrárinnar eru sett fram.

Vísa í opinber gögn

Í tilkynningunni segir jafnframt að með staðreyndavaktinni vilji SUS leggja sitt af mörkum til að umræða um stjórnarskrármál sé byggð á því sem rétt er og finna má stoð fyrir á vef Alþingis og í öðrum opinberum gögnum en ekki á einstaka skoðunum eða rangfærslum. 

Þá telur SUS að umræða um stjórnarskrána og breytingar á henni verði að byggja á því sem rétt reynist til að komast megi að niðurstöðu í sem víðtækastri sátt um stjórnarskrána til framtíðar. Stjórnarskrá hvers ríkis sé grundvöllur eða rammi fyrir öll önnur lög sem sett eru í landinu. Hún tryggi grundvallarréttindi hvers og eins borgara og kveði á um grunnstoðir stjórnskipunar.

Skiptar skoðanir um framkvæmd og form

Þeir sem eru fylgjandi því að ný stjórnarskrá verði gerð hafa undanfarið ráðist í auglýsingaherferð á samfélagsmiðlum og kallað eftir því að vinnu við endurskoðun hennar verði flýtt. Veronika Steinunn Magnúsdóttir formaður Heimdallar sagði í aðsendri grein á Vísi fyrir helgi að þó svo að 66,8 prósent þeirra sem kusu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla árið 2012 hefðu viljað að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, þá hefði kosningaþátttaka verið það lítil að hún endurspeglaði ekki vilja þjóðarinnar í heild, aðeins 31 prósent kosningabærra manna í landinu hefðu samþykkt það.

„Svör við þessum dræmu undirtektum við þessa tilteknu stjórnarskrá eru bágborin og meintu tómlæti kjósenda, að hafa ekki mætt á kjörstað, kennt um. Að mínum dómi eru það ekki nógu sterk rök til þess að hrófla við grundvallarlögum okkar réttarkerfis.“ segir Veronika í greininni.

Ósk Elfarsdóttir, lögfræðingur, segir í svargrein sinni á Kjarnanum í gær að málþóf Sjálfstæðisflokksins hafi komið í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram samhliða forsetakosningum árið 2012. 

„Í öllum ráð­gef­andi þjóð­ar­at­kvæða­greiðslum sem haldnar hafa verið á Íslandi á lýð­veld­is­tíma þjóð­ar­inn­ar, hefur vilji meiri­hluta þeirra sem greiddu atkvæði verið virt­ur. Þar með talið í þau skipti sem kjör­sóknin var 45,3 prósent og 53 prósent. Það að frum­varp stjórn­laga­ráðs hafi ekki verið tekið til með­ferðar sam­kvæmt 79. grein og lagt til grund­vallar stjórn­ar­skrár Íslands stang­ast á við horn­steina íslenskrar stjórn­skip­unar um að við séum lýð­ræð­is­ríki og að þjóðin sé stjórn­ar­skrár­gjaf­inn.“ segir Ósk í greininni.