Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sameinuð stjórn nýlunda í svo stóru sveitarfélagi

22.09.2020 - 19:47
Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson / RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Ekki eru fordæmi fyrir því að afnema meirihluta og minnihluta og hafa sameinaða bæjarstjórn í jafn stóru sveitarfélagi og Akureyri að sögn Grétars Þórs Eyþórssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.

Bæjarfulltrúar á Akureyri stigu þetta skref í dag þar sem samstjórn allra flokka var kynnt. Með því er ætlunin að ná betur utan um þann mikla hallarekstur við blasir við sveitarfélaginu.

„Það er mjög útbreitt á sveitarstjórnarstiginu, sérstaklega í minni sveitarfélögum, að það er kannski ekki mikill ágreiningur. En þetta er nýlunda í stóru sveitarfélagi eins og Akureyri,“ segir Grétar Þór.

Hann segir að saga sveitarstjórnarmála á Akureyri sé ekki átakasaga á seinni árum, svo ef hægt hefði verið að búast við tíðindum sem þessum hefði Akureyri jafnvel átt að koma til greina.

En þarf að óttast aðhaldsleysi í garð bæjarstjórnar þegar enginn er minnihlutinn?

„Ég held að aðhaldið gæti verið fólgið í því að það er hver og einn flokkur og framboð búið að gangast inn á þetta samkomulag. Það að halda það er út af fyrir sig ákveðið aðhald fyrir hvern og einn,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.