„Rosa mikið sem gerist á börunum og göngunum“

Mynd: RÚV / Okkar á milli

„Rosa mikið sem gerist á börunum og göngunum“

22.09.2020 - 11:58

Höfundar

Sigríður Torfadóttir Tuliníus hefur búið í London undanfarin ár og verið í hringiðu breskra stjórnmála. Hún lærði myndlist á Íslandi en skipti svo yfir í borgarhönnun og þaðan í lögfræði og starfar nú fyrir Skoska þjóðarflokkinn á breska þinginu.

Sigríður er gestur Sigmars Guðmundssonar í Okkar á milli í kvöld en hún segir þær hefðir og venjur sem gilda á breska þinginu allt aðrar en Íslendingar eiga að venjast. Þá eru þetta mjög sögulegir tímar og Sigríður er í miklu návígi við þá upplausn sem ríkir víða í samfélaginu meðal annars vegna Brexit og COVID-19. „Ég held það séu búnir að vera þrír forsætisráðherrar meðan ég hef verið þarna, og tveir stjórnarandstöðuleiðtogar. Það er búið að vera rosa mikið kaos í rosa langan tíma.“

Eitt hefur hún þó lært bæði í mannkynssögu og einnig með því að fylgjast með sögunni í rauntíma. „Fólk er ekki endilega með eitthvað plan. Það er bara að spinna eitthvað upp á staðnum og enginn veit hvert skal haldið, og svo finnur fólk út úr hlutunum.“ Í breska þinginu er mikið um rökræður en hins vegar er margt ákveðið og handsalað utan þingsalsins. „Það er rosa mikið sem gerist á börunum og göngunum.“ Í þinghúsinu eru margir barir og vegna stéttaskiptingar eru sérstakir barir fyrir þingmenn og aðrir fyrir starfsfólkið. Þá eru ákveðnir þingmenn sem hafa hlutverkið „whips“ eða svipur, en þeir sjá um að passa upp á að þingmenn kjósi eftir flokkslínunni, en næstum 700 þingmenn sitja á þinginu. „Þeir passa upp á að sínir þingmenn séu á réttum stöðum.“

Sigmar Guðmundsson ræðir við Sigríði Torfadóttur Tuliníus í Okkar á milli sem er á dagskrá RÚV kl. 20 í kvöld.

Tengdar fréttir

Innlent

Barnaníð sem er miklu hræðilegra en fólk ímyndar sér

Innlent

„Eina sem maður getur gert er að stappa í þá stálinu“

Mannlíf

„Fólk heldur stundum hreinlega að ég sé drukkin"

Menntamál

Börnin okkar eigi ekki að vera tilraunadýr