Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rannsakar morðið á óþekktu konunni í skóginum

Mynd: Gunnar Hansson / RÚV

Rannsakar morðið á óþekktu konunni í skóginum

22.09.2020 - 11:10

Höfundar

Á fallegum vetrardegi 1970 rakst maður á göngu um Ísdalinn í nágrenni Bergen á illa brunnið lík konu í fjallshlíðinni. Morðið hefur aldrei verið upplýst en í nýju leikriti úr smiðju Friðgeirs Einarssonar og Péturs Ármannsonar velta þeir fyrir sér málinu og örlögum konunnar í skóginum.

Leiksýningin Club Romantica eftir Friðgeir Einarsson í leikstjórn Péturs Ármannssonar vakti mikla athygli þegar hún rataði á fjalirnar 2019. Verkið hlaut Grímuna sama ár sem leikrit ársins. Þetta var nokkurs konar rannsóknarferðalag þar sem Friðgeir sjálfur kynnti til sögunnar myndaalbúm sem hann fékk á flóamarkaði í Belgíu. Í sýningunni reynir hann að komast að því hvaða fólk er á myndunum og hvað sé að gerast á þeim. Friðgeir og Pétur eru nú að leggja lokahönd á nýja sýningu, sem verður önnur í nokkurs konar ráðgátuþríleik þeirra félaga. Hún nefnist Útlendingurinn og byggist líkt og Club Romantica á örlögum raunverulegrar manneskju, en þessari sýningu lýsa þeir sem eins konar morðmysteríu. Snorri Helgason sér um tónlistina í sýningunni.

Friðgeir fluttist nýlega til Bergen í Noregi og fékk hugmyndina þegar hann var að kynnast nýjum heimkynnum. „Ég hef verið að reyna að aðlagast og kynna mér borgina sem er stundum erfitt því ég er rithöfundur og leikskáld sem vinn mikið heima. Ég hef ekki beinar tengingar við samfélagið nema í gegnum börnin mín,“ segir Friðgeir. Hann fór á stúfana og var að lesa sér til um merkilegar sögur sem gerst hefðu á þessum slóðum og rambaði á afar dularfullt og óupplýst morðmál. Konu fannst látin í skóginum fyrir fimmtíu árum, steinsnar frá heimili Friðgeirs í dal sem nefnist Ísdalur. „Það kom á daginn að konan væri ekki norsk heldur útlendingur en hún hafði gengist undir ýmsum dulnefnum og ferðast um Noreg og alla Evrópu og siglt undir fölsku flaggi,“ segir Friðgeir í samtali við Önnu Marsibil Clausen í Lestinni á Rás 1.

Við rannsókn á morðinu fannst farangur konunnar en það kom í ljós að miðar höfðu verið klipptir af öllum fötum hennar og það var búið að afmá allar merkingar af snyrtivörum og kremi. „Það var greinilegt að hún var að reyna að dylja hver hún var. Mörgum fannst þetta benda til að hún væri njósnari eða á vegum glæpasamtaka og hefði komið til Bergen til að gera eitthvað ólöglegt. En það hefur aldrei tekist að upplýsa hver hún var, af hverju hún kom til Bergen og hvernig hún dó þarna lengst inni í skógi,“ segir Friðgeir. Í sýningunni er þráðurinn tekinn upp í þessu óhuggulega sakamáli sem er þekkt um allan heim. „Á netinu eru tugþúsungir manna í hópum sem hafa það eitt að markmiði að leysa þetta mál.“

Club Romantica var nokkuð ljúfsár sýning þar sem bæði var hlegið og grátið í salnum. En er hægt að hlæja og fjalla að einhverri léttúð um morðmál? „Ég held við getum ekki gert grín að málinu sjálfu en okkar listræna markmið er að fanga mennsku konunnar. Ekki hlutgera hana sem viðfang í sakamáli,“ segir Pétur. „Auðvitað er svolítill húmor í að taka að sér hlutverk rannsakanda og áhugaspæjara í svona máli og sýningin er ábyggilega og vonandi fyndin og skemmtileg. En við reynum að fanga alla liti manneskjunnar.“ Friðgeir tekur undir og segir að það sé lagt upp með að fjalla um raunverulegt fólk og atburði af nærgætni. „Alveg eins og í síðustu sýningu reynum við að nálgast málið af virðingu því á endanum er þetta manneskja sem hefur orðið fyrir hræðilegu ofbeldi. Við reynum að vera meðvituð um það við sem komum að sýningunni.“

Óupplýst sakamál eins og útlensku konunnar í Bergen hefur gjarnan verið til umfjöllunar í glæpahlaðvörpum. Meðal annars fjallaði Vera Illugadóttir um hana í hlaðvarpi sínu Leðurblökunni sem hægt er að hlýða á hér í spilara RÚV. Með því að færa söguna á leiksviðið er lagt upp með að skapa upplifun sem reynir á fleiri skynfæri en hljóð en einnig skoða mál sem þessi út frá óvæntum vinklum. „Við erum að fjalla um þessa glæpahneigð fólks sem ekki er glæpamenn, það er að segja fýsn fólks í umfjöllun um glæpi og glæpasögur og krimma,“ segir Friðgeir. „Við veltum því upp hvað það er í okkur, sem búum í fínum húsum og höfum það gott, af hverju við sækjum í efni um að lífið sé murkað úr saklausu fólki. Hvað það er í sálinni sem kallar á það.“

En um mál konunnar í skóginum hefur verið fjallað um margsinnis og eins og Friðgeir bendir á er atburðurinn löngu skeður. „Við erum vonandi ekki að særa neinn með þessu. En við veltum líka upp og gagnrýnum svokallað dead girl genre þar sem lík finnst af konu og í kjölfarið fer karlmaður á flakk og kemst að einhverju um sjálfan sig. Við erum að leika okkur með þetta og reyna að snúa upp á það, gera fólk meðvitað um að þetta er saga sem er endurtekin ansi oft.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Friðgeir og Pétur í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

Á mörkum þess að vera eltihrellir

Leiklist

Líf ókunnugra á leiksviði í Club Romantica