Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norræna stækkuð - heilli hæð bætt ofan á skipið

22.09.2020 - 19:00
Farþegaferjan Norræna verður stækkuð í vetur og útikaffihúsi og heilli hæð með 50 káetum fyrir 100 manns bætt ofan á skipið. Ferjan verður úr leik í tvo og hálfan mánuð og annað skip sinnir vöruflutningum á meðan. 

Norræna kemur til Seyðisfjarðar í hverri viku frá Hirtshals í Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Ferjan var smíðuð árið  2003 og er því orðin 17 ára gömul. 

„Það var kominn tími á endurnýjun á mörgu en við ákváðum þá að stækka hana í leiðinni. Nota tímann á meðan ekki er mikið að gerast í ferðaþjónustunni. Við ætlum að bæta við hæð og 50 káetum,“ Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi. 

Ferjan verður líkari skemmtiferðaskipi

Á leiðinni til Íslands gista farþegar þrjár nætur á vetrarsiglingu en tvær á sumrin. Í þessum framkvæmdum verða líka káetur og ýmis afþreyingarrými endurbætt og uppi á dekki verður meðal annars smíðað útikaffihús. Nú eru í skipinu 318 káetur, veitingastaðir, verslun, sundlaug og líkamsræktarstöð og rúmar Norræna mest 1482 farþega. Á háannatíma á sumrin koma 12-1300 manns með ferjunni í hverri ferð og mörg hundruð ökutæki. Eftir breytingarnar má gera ráð fyrir að hundrað farþegar bætist við á háannatíma. Skipið fer í slipp hjá Fayard skipasmíðastöðinni í Munkebo í Danmörku.

Hafa trú á miklum viðskiptum eftir Covid

„Á meðan hún fer í slipp, frá miðjum desember fram í byrjun mars,  leigjum við inn flutningaskip af því að okkar rekstur felst líka í vöruflutningum. Við erum mjög mikilvæg  á austur-hlið landsins með Norrænu í vöruflutningum og svo farþegaflutningum þannig að við munum leigja inn skip á meðan til að leysa af en við bjóðum ekki upp á farþegasiglingar á þessum tíma. Þetta er mjög mikil framkvæmd sem kostar mikið en við trúum því og treystum að þegar við verðum búin að komast yfir þennan vírus þá vilji fullt af ferðamönnum komast til Íslands og Færeyja,“ segir Linda Björk.

Gert er ráð fyrir því að endurnýjuð Norræna sigli frá Hirtshals í Danmörku til Færeyja og Íslands 6. mars 2021. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV