Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lýsir þungum áhyggjum af skeytingarleysi ríkisins

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir þungum áhyggjum af því sem hún kallar skeytingarleysi ríkisins varðandi rekstur hjúkrunarheimila í landinu. Bæjarstjórnin sagði upp samningi við Sjúkratryggingar um rekstur hjúkrunarheimilisins Hraunbúða í sumar.

Eyjafréttir greina frá þessu. Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar segir að lítið hafi komið fram á fundi bæjarstjóra og embættismanna með Sjúkratryggingum Íslands varðandi uppsögn samnings við Sjúkratryggingar og yfirfærslu reksturs hjúkrunarheimilisins Hraunbúða til ríkisins.

Þá kom fram að frá árinu 2010 hefði Vestmannaeyjabær greitt um 500 milljónir með rekstrinum. Samningurinn fellur úr gildi í nóvember. Mörg sveitarfélög hafa kvartað sáran undan þungum rekstri heimilanna, sem sum þeirra hafa þurft að greiða hundruð milljóna með, enda dugi fjárveitingar ekki til.

Allmörg sveitarfélög hafa sagt upp samningum sínum við Sjúkratryggingar. Bæjarstjórn Vestmannaeyja segir daggjöld lág og standi engan veginn undir rekstri hjúkrunarheimila.

Í bókun bæjarstjórnarinnar segir að hún leggi ríka áherslu á að þjónusta við íbúa Hraunbúða og aðra sem þangað leiti haldist óbreytt. Sömuleiðis sé mikilvægt að starfsfólki verði tryggð störf við yfirfærslu stofnunarinnar til ríkisins.