Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lögreglan hafði afskipti af frönsku ferðamönnunum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Erlendu ferðamennirnir tveir, sem hafa verið nefndir í tengslum við mikla útbreiðslu smita hér á landi að undanförnu, voru í húsnæði á eigin vegum á meðan stuttri dvöl þeirra stóð. Þetta kemur fram í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu dvöldust ferðamennirnir í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Lögreglan hafði afskipti af þeim þegar þeir fylgdu ekki sóttvarnaráðstöfunum til hins ítrasta en ekki þótti ástæða til að sekta þá.

Fram hefur komið í fréttum að ferðamennirnir tveir hafi verið frá Frakklandi.

Við raðgreiningu á veirunni sem hefur keyrt áfram þriðju bylgju faraldursins síðustu daga kom í ljós að þar er á ferðinni sama afbrigði og greindist hjá þeim.   

Í svari ríkislögreglustjóra kemur fram að þegar ferðamennirnir reyndust smitaðaðir hafi málið verið unnið í samvinnu við þá. „Vegna vankunnáttu var sóttvarnaráðstöfunum ekki fylgt til hins ítrasta,“ segir í svarinu. Málið hafi verið leyst með þeim þar til þau fóru af landi.

Ríkislögreglustjóri segir að ferðamennirnir hafi ekki brotið einangrun og að ekki hafi þótt ástæða til að beita sektum vegna þeirra afskipta sem lögreglan hafði af þeim. „Beiting leiðbeininga og tilmæla hafa reynst vel í afskiptum af þeim sem ekki fylgja öllum reglum. Sektum er ekki beitt nema rík þörf sé á,“ segir í svari ríkislögreglustjóra.

Þar segir enn fremur að sóttvarnayfirvöldum beri skylda til að upplýsa eða segja frá því hvernig standi á því að faraldur sé innanlands á sama tíma og harðar aðgerðir eru á landamærum. 

Alls greindust 38 með kórónuveirusmit í gær. Helmingur þeirra var í sóttkví. Flest smitin hafa verið rakin beint og óbeint til tveggja skemmtistaða í Reykjavík. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er ekki verið að rannsaka nein mál sem tengjast frönskum ferðamönnum.