Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Katrín og Svandís veikar og ekki á ríkisstjórnarfundi

22.09.2020 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Hvorki Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mættu á ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í morgun vegna veikinda.

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir að litlar líkur séu á að Katrín sé með COVID-19. Hún fór að finna fyrir flensueinkennum í gærkvöldi og fer í einkennasýnatöku núna fyrir hádegi í dag.

Svandís er einnig á leið í sýnatöku í dag. Iðunn Garðarsdóttir, aðstoðarmaður Svandísar, segir að Svandís hafi fundið fyrir flensueinkennum í gær og ákveðið að halda sig til hlés.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var heldur ekki á ríkisstjórnarfundi í morgun. Hún er með kvef og taldi réttast að vera heima í dag. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu um hvort Lilja ætli að fara í sýnatöku segir að engar frekari upplýsingar verði gefnar nema breytingar verði á stöðunni.

Það eru litlar líkur á því að Katrín sé með COVID-19, að sögn Róberts. Hún hafi ekki verið útsett fyrir smiti en fylgi þeim tilmælum að mæta ekki til vinnu eða vera meðal fólks ef það er veikt. „Sé fólk með einhver flensueinkenni eða eitthvað slíkt þá á það að halda sig heima og fara í test,“ bendir Róbert á.

Þá er Guðlaugur Þór Þórðarsson í sóttkví eftir að hafa komið heim frá útlöndum. Hann sat þess vegna ekki ríkisstjórnarfund í morgun.

Ríkisstjórnin fundar yfirleitt á þriðjudögum og föstudögum. Ríkisstjórnin kom saman í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík í morgun án Katrínar, Svandísar, Lilju og Guðlaugs Þórs. Í fjarveru Katrínar forsætisráðherra stýrir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra, fundinum.

Fréttin var uppfærð klukkan 10:42 með upplýsingum um sýnatöku Svandísar Svavarsdóttur.

Uppfært kl. 13:49 með svari ráðuneytisins um Lilju Alfreðsdóttur.