Hvorki Katrín né Svandís með COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Hvorki Katrin Jakobsdóttir, forsætisráðherra, né Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, eru með COVID-19. Katrín greindi frá niðurstöðunni úr sinni skimun á Facebook en Iðunn Garðarsdóttir, aðstoðarmaður Svandísar, staðfesti neikvæðu niðurstöðuna í samtali við fréttastofu. Allir ráðherrarnir hafa því þurft að fara í sýnatöku.

Katrín hefur nokkra reynslu af sýnatökupinnunum alræmdu.

Hún fór í sýnatöku eftir að smit kom upp í skóla sonar hennar og svo í tvöfalda sýnatöku eftir hópsýkinguna á Hótel Rangá þar sem ríkisstjórnin hafði fundað. 

Hún fór síðan í morgun þegar öll fjölskyldan hennar var orðin veik en þar virðist vera hefðbundin flensa á ferðinni. „Við þreyjum hana, fegin og þakklát því að ekki er um sjálfa kórónuveiruna að ræða,“ skrifar Katrín.

Hún brýnir síðan landsmenn til að sinna persónubundnum sóttvörnum og rifjar upp að flugstjóri í flugi til Egilsstaða í síðustu viku hafi greint frá því að hann og hans fjölskylda hefði öll fengið COVID-19 í vor og það hefði verið reynsla sem þau hefðu vilja sleppa. „Við verðum öll að gæta varúðar, munum að þvo okkur um hendur, spritta, gæta fjarlægðar og gera allt sem við getum sameiginlega til að berja niður þessa þriðju bylgju veirunnar.“

Svandís þurfti ekki að fara í sýnatöku vegna hópsýkingarinnar á Hótel Rangá. Hún fó hins vegar í morgun eftir að hafa fundið fyrir flensueinkennum. Hvorki Svandís né Katrín voru á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og ekki heldur Lilja Alfreðsdóttir sem er með kvef. 

Engin ákvörðun hefur verið tekin hvort hún þurfi að fara í sýnatöku. Lilja fór í sóttkví og sýnatöku í sumar eftir smit í nærumhverfi hennar og aftur eftir fundinn á Hótel Rangá. 

Þá var Guðlaugur Þór Þórðarson heldur ekki á ríkisstjórnarfundinum en hann er í skimunarsóttkví eftir að hafa verið í útlöndum. Hann var einn þeirra ráðherra sem þurfti að fara í tvöfalda sýnatöku eftir fundinn fræga á Hótel Rangá.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, hefur líka þurft að fara í sýnatöku þótt þær hafi ekki farið hátt í fjölmiðlum. Hann segir í samtali við fréttastofu að hann hafi farið í sýnatöku í vor þegar hann var með flensueinkenni og svo aftur til öryggis eftir fundinn á Hótel Rangá. Ásmundur var ekki í kvöldverðinum sem leiddi til sýnatökunnar en rétt þótti að ganga úr skugga um að hann væri ekki með COVID-19.

Fréttin hefur verið uppfærð

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi