Huga að næstu skrefum vegna nýs þjóðarleikvangs

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Huga að næstu skrefum vegna nýs þjóðarleikvangs

22.09.2020 - 16:13
Til að uppfylla alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til sérsambanda vegna alþjóðlegra keppna eða landsleikja í handbolta og körfubolta verður að byggja nýtt mannvirki. Menntamálaráðherra segir næst á dagskrá að tryggja fjármögnun.

Þetta eru niðurstöður skýrslu sem starfshópur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir hefur skilað af sér. Starfshópurinn var sammála um Laugardal sem fyrsta val fyrir staðsetningu Þjóðarleikvangs. Þá sé mikilvægt að mannvirkið sé fyrst og fremst íþróttahús en horft til þess að það geti einnig hýst stóra tónleika eða aðra menningarviðburði.

Sjá einnig: Hagstæðara að byggja stærra hús fyrir innanhússíþróttir

„Við horfum til þess að efla mjög innviðafjárfestingar og nú hafa starfshópar skilað greiningu á ólíkum sviðsmyndum fyrir bæði inniíþróttir og knattspyrnu. Stór hluti undirbúningsvinnu er kominn vel á veg og mikilvægt að huga að næstu skrefum. Fram undan er að tryggja fjármögnun og samvinnu við okkar helstu samstarfsaðila, ráðast í hönnun og grípa skófluna og byggja framtíðarleikvanga fyrir landslið Íslendinga, íþróttaunnendur og iðkendur á öllum aldri,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á vef Stjórnarráðsins.