Hreyfing nýnasista bönnuð í Finnlandi

22.09.2020 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Twitter
Hæstiréttur Finnlands staðfesti í dag niðurstöðu undir- og áfrýjunarréttar um að banna starfsemi Norrænu andspyrnuhreyfingarinnar, samtaka finnskra nýnasista. Þetta er í fyrsta sinn í fimmtíu ár sem starfsemi félagasamtaka er bönnuð í Finnlandi.

Lögregluyfirvöld fóru árið 2017 fram á að starfsemi finnska hluta Norrænu andspyrnuhreyfingarinnar NMR yrði bönnuð. Dómari féllst á það. Í úrskurði hans sagði að knýjandi samfélagsleg þörf væri á að leggja samtökin niður. Félagarnir stunduðu hatursáróður, útmáluðu sig sem fórnarlömb og skilgreindu eigin ofbeldisverk sem lögmæta sjálfsvörn. Jafnframt segir í úrskurðinum að félagar í samtökunum upphefji styrk og árásargirni og hvetji til ofbeldisverka. 
Nýnasistar áfrýjuðu dóminum, en áfrýjunarréttur féllst á hann. Hæstiréttur féllst á að taka málið til skoðunar og staðfesti dóminn í dag. 
Það hefur ekki gerst síðan árið 1970 að starfsemi félagasamtaka sé bönnuð í Finnlandi. Jafnframt voru tengd samtök sem kallast Pohjoinen perinne svipt starfsleyfi. Þau hafa gefið út tímarit og rekið vefverslun þar sem nasistaáróður og varningur tengdur nasisma og nýnasistum er á boðstólum. 
Norræna andspyrnuhreyfingin hefur ekki starfað opinberlega í Finnlandi frá árinu 2018 vegna tímabundins banns við starfseminni. 
 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi