Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fjölga þarf leiðum til verðmætasköpunar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Renna þarf styrkari stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Hagkerfið stendur ekki undir óbreyttum kaupmætti án nýrrar verðmætasköpunar.

Í Morgunblaðinu í dag er vitnað í skýrslu kjaratölfræðinefndar þar sem fram kemur að kaupmáttur launa hefur haldist í kórónuveirukreppunni öfugt við kreppu áranna 1988 til 1995 og eftir hrunið 2008.

Hagkerfið standi þó ekki undir þeim kaupmætti til lengdar án þess að til nýrrar verðmætasköpunar komi. Haft er eftir Ingólfi Bender, aðalhagfræðingi Samtaka atvinnulífsins, að það þurfi að gerast strax.

Staða opinberra fjármála hafi verið góð fyrir kreppuna sem hjálpi til við að milda niðursveifluna og skapa hagkerfinu viðspyrnu. Samdráttur landsframleiðslu er hraðari í kórónuveirukreppunni en í þeim kreppum sem hún var borin saman við. Á hinn bóginn er verðbólga lægri og kaupmáttur á uppleið.

Í orðum Hennýjar Hinz, eins skýrsluhöfunda, sem var deildarstjóri hagdeildar ASÍ kemur fram að margir horfi fram á minnkandi tekjur. Það sé vegna samdráttar í vinnu eða vegna atvinnumissis, þótt kaupmáttur reglulegra launa hafi verið að aukast.

Henný segir miklu skipta að halda verðbólgu niðri. Yngvi Harðarson hagfræðingur segir botni hagsveiflunnar ekki alveg náð. Ný bylgja kórónuveirunnar hafi talsvert að segja um að hagvísar á Íslandi fylgi ekki hagvísum erlendis.

Niðurstaða kjaratölfræðinefndar er að brýnt sé að setja fram glögga framtíðarsýn um fjölbreyttar stoðir undir hagvöxt en að einblína á hraðan vöxt í einstaka atvinnugreinum. Henný Hinz segir það minnka líkurnar á stórum áföllum sem hafi víðtæk áhrif.