Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fjárhagsstaða stærstu sveitarfélaganna versnar

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Fjárhagsstaða stærstu sveitarfélaganna versnar á fyrri árshelmingi. Þetta kemur fram í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga á árshlutauppgjöri fjögurra af fimm stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar og Akureyrar. Í þeim búa um 60% landsmanna, nærri 220 þúsund manns.

Þessi fjögur sveitarfélög hafa birt árshlutauppgjör fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs.

Viðsnúningur úr rekstrarafgangi í halla nemur 5,9 milljörðum

Samtökin birtu samantektina á vef sínum í dag. Helst nefna þau að úr A-hluta eru samanlagðar heildartekjur sveitarfélaganna 1,6% lægri en á sama tíma í fyrra,  sem er lækkun um 3,9% á föstu verðlagi. Tekjufallið er mest í Reykjavíkurborg, um 2,6%, sem skýrist ekki síst af samdrætti í sölu byggingarréttar, sem fært er undir þjónustutekjur og aðrar tekjur.

Þá hækka skatttekjur Akureyrarbæjar um 3,2% og um 0,3% í Reykjavík en lækka í Hafnarfirði um 0,1%.

Þá er samdráttur fjárfestingar verulegur eða 18,9% frá sama tíma í fyrra en minnstur hjá Reykjavíkurborg eða 3,7%. 

Rekstrarafgangur sem var 2,3 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum í fyrra, 2,5% af tekjum, snýst í halla í ár upp á 3,6 milljarða, 3,6% af tekjum. Viðsnúningurinn nemur 5,9 milljörðum.

Halli hjá öllum sveitarfélögum

Halli er hjá öllum sveitarfélögunum. Mestur er hallinn hjá Hafnarfirði, 5,9% af tekjum og litlu minni í Reykjavíkurborg, 5,1% af tekjum.

Á fyrstu sex mánuðum ársins tóku þessi sveitarfélög samanlagt 9 milljarða króna lán til langs tíma og greiddu 2,2 milljarða í afborganir af langtímalánum. Lántökur umfram afborganir voru því  6,8 milljarðar. Á sama tíma í fyrra námu lántökur 2,1 milljörðum umfram afborganir. Skuldir og skuldbindingar námu í lok júní í ár 223 milljörðum króna og hækka um 10,2 milljarða króna frá áramótum.

Samanlagt veltufé frá rekstri 64% minna, er 3,1% í Reykjavík

Veltufé frá rekstri á fyrri helmingi árs 2020 er 64% minni en á sama tíma árið áður. Rekstur skilaði alls 3,1 milljarði króna, 3,1% af tekjum, veltufé en 8,6 milljarðar á sama tíma í fyrra eða 9,2% af tekjum.

Akureyrarbær skilar neikvæðu veltufé sem nemur 1,6% af tekjum miðað  við jákvætt veltufé um 2,3% af tekjum á sama tíma árið áður. Umskiptin eru hvað mest í Reykjavíkurborg, veltufé frá rekstri nemur 3,1% af tekjum en var 10,8% á sama tíma í fyrra, segir í samantektinni.

Atvinnuleysi jókst úr 3,6% í 7,5% af vinnuafli

Samkvæmt Vinnumálastofnun töldust að meðaltali 118 þúsund manns vera starfandi í sveitarfélögunum á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra töldust um 122.500  starfandi. Um 4.500 manns voru atvinnulausir í fyrra, en um tvöfalt fleiri eða um 9.600 í ár. Atvinnuleysi hefur þannig aukist úr 3,6% í 7,5% af vinnuafli.

Fréttin hefur verið leiðrétt þar sem villa var í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga um rekstrarafgang hjá Kópavogi. Ábending um þetta kom frá Kópavogsbæ.

Mynd með færslu