„Er að selja mat og gistingu, þarf ég að svara þessu?“

22.09.2020 - 11:33
Veitingastaður
 Mynd: Fréttir
Sjö af hverjum tíu ferðaþjónustufyrirtækjum hér á landi þurfa á einhvers konar neyðarfjármagni eða skammtímafjármögnun að halda vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Fyrirtækin telja sig flest þurfa á aðstoð að halda í sex til tuttugu og fjóra mánuði.

Íslenski ferðaklasinn kannaði hver áhrif faraldursins væru meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu hér á landi í spurningakönnun í byrjun september. Af 100 fyrirtækjum sem fengu könnunina svöruðu 56. 

Sextíu og níu prósent fyrirtækjanna sögðust þurfa á einhvers konar neyðarfjármagni eða skammtímafjármögnun að halda en tæp 32 prósent ekki. Langflest, eða 89,3 prósent, fyrirtækjanna sögðust hafa rýnt í fastan rekstrarkostnað til að skera niður í rekstri. 62,5 prósent hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda og rúm 73 prósent hafa gert skammtímaáætlun um hvernig fyrirtækið geti komist af næstu sex mánuði. 

Engir viðskiptavinir og engar tekjur í marga mánuði

Í umsögnum rekstraraðila um hvaða áhrif faraldurinn hefði haft á reksturinn kemur fram að tekjufall sé gríðarlegt. Engir viðskiptavinir eða tekjur hafi komið inn í sex til átta mánuði. Aðeins eigendur séu í vinnu og opnunartími takmarkaður. Eitt svarið var svohljóðandi: „Er í ferðaþjónustu að selja mat og gistingu, þarf ég að svara þessu?“

Líta björtum augum til framtíðar

Áberandi var ákall rekstraraðila um styrki frá hinu opinbera til að mæta afleiðingum faraldursins. Þegar horft var til lengri tíma virtist hins vegar gæta talsverðrar bjartsýni meðal fyrirtækjanna sem sögðust nánast öll telja að árið 2024 verði þau starfandi og að reksturinn muni ganga vel. 

Af þeim sem svöruðu eru 37,5 prósent fyrirtækjanna í skipulagningu ferða eða ferðaskrifstofur og tæp 29 prósent hótel eða gististaðir. Tæp 20 prósent svarenda sérhæfðu sig í afþreyingu og rúm 16 prósent í farþegaflutningum. Svarendur ráku flestir lítil fyrirtæki þar sem stöðugildi voru á bilinu eitt til fimm. Fjórðungur var með sex til tíu stöðugildi og rúm 23 prósent með ellefu til fimmtíu stöðugildi.

90 prósenta samdráttur í tekjum ferðaþjónustunnar

Í skammtímahagvísi ferðaþjónustunnar sem Hagstofan gaf út í dag kemur fram að tekjur af komu ferðamanna hingað til lands hafi verið 12 milljarðar á öðrum ársfjórðungi. Það sé samdráttur um 90 prósent frá sama ársfjórðungi 2019 þegar tekjurnar voru ríflega 118 milljarðar. Í júní voru tæplega 20 þúsund manns starfandi við ferðaþjónustu og hafði fækkað um 35 prósent frá því í júní í fyrra.

Áætlað er að gistinætur á hótelum í ágúst hafi dregist saman um 58 prósent og fækkað úr tæplega 523 þúsund í 221 þúsund samanborið við ágúst í fyrra. Gistinóttum útlendinga fækkar um 79 prósent á milli ára en hins vegar fjölgar mjög gistinóttum Íslendinga í ár. Þær voru 121 þúsund samanborið við 38 þúsund í ágúst 2019.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi