Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Enginn meiri- eða minnihluti í bæjarstjórn á Akureyri

22.09.2020 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar hafa ákveðið að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabils. Bæjarstjórn mun því í sameiningu vinna að þeim verkefnum sem framundan eru við rekstur sveitarfélagsins.

Bæjarstjórn telur þetta gerlegt þar sem samhljómur sé í helstu stefnumálum og traust ríki milli allra kjörinna fulltrúa.

Það sem blasi við í rekstri Akureyrarbæjar sé áður óþekkt og þessi ákvörðun sé tekin í þeirri trú að með þessum hætti geti bæjarfulltrúar best þjónað því hlutverki sem þeir eru kjörnir til.

Þeir flokkar sem áður voru í minnihluta taka við formennsku í skipulagsráði, frístundaráði, stjórnum Menningarfélags Akureyrar, Vistorku og Fallorku.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Gunnlaugur Starri Gylfason
Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi bæjarstjórnar í hádeginu

Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-lista og forseti bæjarstjórnar, segir að þar sem framundan séu margar og erfiðar ákvarðanir sem bæjarfulltrúar þurfi að taka og muni hafa áhrif á bæjarbúa næstu árin, sé það lýðræðislega rétt að allir fulltrúar komi að því og taki ábyrgð á því saman. Aðspurð um hvort það aðhald, sem minnihluti veitir meirihluta muni ekki breytast, segir hún ekki svo vera. „Nú höfum í raun kannski meira frelsi til að bóka skoðanir okkar og tökumst á hér eftir sem hingað til. En við erum sammála um stóru drættina og höfum gert sáttmála um þau mál. Svo koma auðvitað upp mál þar sem við verðum ekki sammála og það á ekki eftir að breytast neitt.“

Gunnar Gíslason, oddviti D-lista, segir að öll bæjarstjórnin sé sammála um að ráðast þurfi í ákveðnar aðgerðir til að takast á við þá erfiðu stöðu sem upp sé komin. „Þessi staða er komin upp vegna hörmunga sem eru að ríða yfir heiminn. Við stöndum frammi fyrir miklu tekjufalli, hækkandi launakostnaði og öðru slíku sem þarf að takast á við. Það eru ýmis önnur verkefni líka sem við erum sammála um að við getum frekar náð fram saman en sitt í hvoru lagi.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson