Kaupmáttur hækkað og vextir lækkað
Það kemur alls ekki á óvart að innan verkalýðshreyfingarinnar er nánast enginn áhugi á að segja upp samningum vegna forsendubrests. Það myndi þýða að ekkert yrði úr samningsbundnum launahækkunum um áramótin. Laun þeirra sem eru á taxtalaunum eiga að hækka um 24 þúsund krónur og almenn laun um 15.750 krónur. Í Lífskjarasamningnum er kveðið á um tilteknar forsendur sem þarf núna að taka afstöðu til fyrir mánaðamót. Þær eru þrenns konar. Að kaupmáttur launa hafi aukist á samningstímanum. Það hefur hann sannarlega gert. Laun hafa hækkað um 8% og verðbólga mælist um 3%. Niðurstaðan er að kaupmáttur launa hafi aukist um 4,8%. Önnur forsendan er að vextir hafi lækkað verulega. Það hafi þeir gert og ekki er deilt um það. Stýrivextir hafa lækkað og vextir af lánum sem meðal annars hefur leitt til þess að margir hafa breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán. Þriðja forsendan er að stjórnvöld hafi staðið við gefin loforð í tengslum við samninganna sem undirritaðir voru í fyrra.
Íslandslánin ekki felld úr gildi
Öll tímasett loforð stjórnvalda hafa staðist nema það sem snýr að afnámi verðtryggingar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fella niður svokölluðu Íslandslán sem eru verðtryggð húsnæðislán til 40 ára. Jafnframt var lofað að hámarksverðtryggingartími yrði 25 ár. Þetta hefur ekki verið gert. Bæði Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sóttu það fast að þetta loforð yrði í pakka ríkisstjórnarinnar. Líklegt er að reynt verði að semja við stjórnvöld um að þessu verði framfylgt og jafnframt samið um önnur loforð sem hafa ekki enn verið framkvæmd eins og svo sem loforð sem tengjast launaþjófnaði. Hitt er svo annað að ekki er yfirgnæfandi stuðningur innan verkalýðshreyfingarinnar um að 40 ára lánin verði afnumin. Bent er á að í fyrsta lagi er það val hvers og eins að taka svona lán og í öðru lagi er upphæð afborgana lág og viðráðanleg fyrir lágtekjufólk. Viðkomandi eignast ekki mikið í húsnæði sínu eða það tekur að minnsta kosti langan tíma. Hins vegar sé hægt að líta á greiðslurnar sem eins konar leigu.
Ekki svigrúm til launahækkana
Forsendunefnd, sem er skipuð þremur frá atvinnurekendum og þremur frá ASÍ, hefur fundað einu sinni. Þar voru menn sammála um að fyrstu tvö forsenduákvæðin hefðu staðist. Nefndin kemur saman á morgun. Á fyrsta fundinum komu atvinnurekendur því á framfæri að ekki væri svigrúm fyrir launahækkanir um áramótin. Þegar laun hækkuðu 1. apríl lagði SA fram tillögu um að mótframlag þeirra í lífeyrissjóði yrði lækkað tímabundið til að vega upp á móti hækkun launa. Vilhjálmur Birgisson og Ragnar Þór Ingólfsson lögðu fram tillögu um að mótframlagið yrði lækkað um 3,5 prósentustig, að heildarframlagið lækkaði tímabundið úr 15 í 12%. Ekki var hljómgrunnur fyrir þessari leið innan ASÍ sem leiddi til að Vilhjálmur sagði af sér sem varaforseti ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson fór úr miðstjórn ASÍ. Eftir því sem næst verður komist hafa þessar hugmyndir ekki verið viðraðar núna þegar ný launahækkun nálgast. Atvinnurekendur hafa hins vegar skilmerkilega komið því á framfæri að ekki sé svigrúm til að hækka laun um áramótin.
„Atvinnurekendur hafa gert verkalýðshreyfingunni skilmerkilega grein fyrir því að ekki sé innistæða fyrir launahækkunum um þessar mundir,“sagði Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.