Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bandarískur Brexit-áhugi

Mynd: RÚV / RÚV
Það kom á óvart þegar Joe Biden forsetaframbjóðandi demókrata í bandarísku forsetakosningunum tísti um að Bretar ættu ekki að brjóta írska friðarsamkomulagið frá 1998. Gott dæmi um áhuga bandarískra stjórnmála á írskum málefnum þar sem írskir innflytjendur hafa lengi verið áhrifamiklir í bandarískum stjórnmálum.

Sérstaka sambandið – snýst líka um Írland

Sérstaka sambandið er til en það er ekki milli Bandaríkjanna og Bretlands heldur milli Bandaríkjanna og Írlands. Bandaríkin beri hag Írlands meir fyrir brjósti en Bretlands, sem megi sjá af bandarískum áhyggjum af Brexit og friðarsamkomulaginu frá 1998, kenndu við föstudaginn langa. 

Afskipti Bidens

Þetta sjónarmið hefur flogið víða eftir að Joe Biden frambjóðandi demókrata í bandarísku forsetakosningunum tísti skilaboð til bresku stjórnarinnar: ,,Við getum ekki leyft að föstudagsins-langa samkomulagið, sem skapaði frið á Norður-Írlandi, verði fórnarlamb Brexit. Viðskiptasamningur Bandaríkjanna og Bretlands er háður því að samkomulagið sé virt og að landamærin lokist ekki. Punktur.“ Svarið frá breska forsætisráðurneytinu var að áfram yrði unnið með bandarískum samstarfsaðilum til að tryggja að þeir skildu bresku afstöðuna. Um leið áminning til Bidens um að hann er enn ekki orðinn forseti og hans flokkur er ekki flokkurinn, sem stendur breska Íhaldsflokknum næst.

Utanríkisráðherra í vesturreisu

Tíst Bidens flaug samtímis því að Dominic Raab utanríkisráðherra hafði brugðið sér í heimsókn til Bandaríkjanna. Málið á rætur að rekja til bresks stjórnarfrumvarps um breskan innri markað. Frumvarpið mun í framkvæmd fella úr gildi þann hluta útgöngusamningsins sem á að tryggja opin landamæri Norður-Írlands og Írlands ef ekki semst um framtíðarviðskipti Breta og Evrópusambandsins. Frumvarpið, sem að sögn Brandon Lewis ráðherra norður-írskra málefna brýtur alþjóðalög.

Raab kennir ESB um, en minnist ekki á þátt forsætisráðherra

En eins og Raab útskýrði á blaðamannafundi í Washington með Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna: ESB hafi snúið málinu upp í pólitík og það sé eina hótunin við friðarsamkomulagið, segir Raab. Raab bætti við að það væri ekki hægt að horfa upp ESB búa til landamæri um Írlandshaf, milli Norður-Írlands og Bretlandseyja. – Ráðherrann nefndi þó ekki að þetta er nákvæmlega sá kostur sem Boris Johnson forsætisráðherra valdi þegar hann samdi við ESB um útgöngu í fyrra, hafnaði þá leiðinni sem forveri hans Theresa May vildi fara.

Pompeo treystir Bretum

Aðspurður sagðist Pompeo treysta Bretum sem fyrr og væri sannfærður um að þeir finndu réttu leiðina. Hann hefði undirstrikað mikilvægi friðarsamkomulagsins, áttaði sig á að málið væri snúið og vildi reyna að styðja Breta eftir mætti. Allt saman kærkomin skilaboð eftir að framámenn í Demókrataflokknum eins og Nancy Pelosi forseti neðra deildar Bandaríkjaþings og aðrir áhrifamiklir þingmenn, auk Bidens, vöruðu Breta við að þeir væru ekki til í viðskiptasamninga, ákaft kappsmál bresku stjórnarinnar, ef Bretar tefldu friðarsamkomulaginu í tvísýnu.

Bandarískur áhugi með sögulegar rætur

Þennan bandaríska áhuga má rekja til þess að þegar samkomulagið var gert 1998 áttu Bandaríkin aðild að því. Það hafði mikil áhrif á Bill Clinton, þá Bandaríkjaforseta, að heimsækja Norður-Írland 1995. Öldungadeildarþingmaðurinn George Mitchell tók þátt í friðarviðræðunum, liðkaði mjög fyrir samningum og Bandaríkjastjórn varð um leið ábyrgðarmaður samkomulagsins. Áhugi Bidens endurspeglar einnig viðleitni til að ná til bandarískra kjósenda af írskum ættum.

Nei, Raab hafði kannski ekki lesið friðarsamkomulagið ítarlega

Heima fyrir hafa menn á köflum efast um að Raab utanríkisráðherra og reyndar einnig Johnson forsætisráðherra skilji í raun hvað friðarsamkomulagið snýst um. Þegar Raab, þá fyrrverandi Brexit-ráðherra, sat fyrir svörum þingnefndar í febrúar fyrra um málefni Norður-Írlands spurði Sylvia Hermon þingmaður norður-írska sambandsflokksins Raab hvort hann hefði í raun lesið friðarsamninginn. Það hafði nefnilega annar ráðherra viðurkennt að hafa ekki gert. Raab sagði ekki  hafa sest niður með samninginn og lesið en á ýmsum tímans punktum í viðræðunum við ESB hefði hann auðvitað þurft að sökkva sér niður í hin ýmsu atriði hans. Hermon þýfgaði hann frekar um þetta, hafði hann lesið samninginn? Nei, Raab hafði ekki lesið samninginn frá upphafi til enda eins og skáldsögu og hafði hann ekki við hendina ef Hermon hefði í hyggju að hlýða honum yfir. Þingmaðurinn ályktaði að nei, Brexit-ráðherrann fyrrverandi hefði aldrei lesið samninginn, sem er þó ekki nein langloka, 35 blaðsíður.

Upphlaup um bandarísk afskipti liður í deilum heima fyrir

Þessi orðaskipti hafa verið rifjuð upp víða undanfarna sólarhringa í áköfum umræðum um gildi nýja frumvarpsins. Allt saman innlegg í harðar deilur innan breska Íhaldsflokksins um frumvarpið og samningaviðræðurnar við Evrópusambandið.