Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Yfirvöld lýsa formlega eftir egypsku fjölskyldunni

21.09.2020 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stoðdeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem óskað var eftir upplýsingum um ferðir og dvalarstað Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi sem vísa átti úr landi í síðustu viku.

Þegar sækja átti þau Ibrahim Mahrous Ibrahim Khedr og Doaa Mohamed Mohamed Eldeib ásamt fjórum börnum þeirra á miðvikudag reyndust þau ekki vera á fyrir fram ákveðnum stað og hafa ekki fundist síðan.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra biður nú um að þeir hafi samband sem geti gefið upplýsingar um ferðir fjölskyldunnar eða viti hvar hún er niðurkomin.

Mál fjölskyldunnar hefur verið mjög áberandi síðustu daga. Brottvísuninni var mótmælt á meðan ríkisstjórnin fundaði í síðustu viku og fengu ráðherrar afhentan undirskriftalista þar sem skorað var á þá að grípa inn í og snúa ákvörðun útlendingastofnunar um að vísa fjölskyldunni úr landi.