Valsarar óstöðvandi - FH komið í annað sætið

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Valsarar óstöðvandi - FH komið í annað sætið

21.09.2020 - 21:49
Fjórir leikir voru í úrvalsdeild karla í fótbolta í kvöld. Stórleikur kvöldsins var viðureign toppliðsins, Vals, og eina taplausa liðs deildarinnar, Stjörnunnar. Valur fór illa með Stjörnuna í fyrri hálfleik sérstaklega og lauk leiknum með stórsigri Vals.

Stjarnan var í þriðja sæti, 10 stigum á eftir Val, fyrir leikinn en átti tvo leiki til góða. Sigur hefði því komið Stjörnunni af fullum krafti í titilbaráttuna en Valsmenn voru aldeilis á öðru máli. Patrick Pedersen kom Val yfir strax á 4. mínútu þegar hann fylgdi skoti Lasse Petry eftir. Þetta var aðeins byrjunin á stórleik Vals. Á 17. mínútu fengu þeir vítaspyrnu þegar Haraldur Björnsson braut á Aroni Bjarnasyni. Pedersen tók vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi og kom Val í 2-0. Áfram héldu Hlíðarendapiltar og Aron var sjálfur á ferðinni fjórum mínútum síðar þegar hann skoraði þriðja mark Vals og fyrri hálfleikur ekki enn hálfnaður. 3-0 varð 4-0 á 31. mínútu þegar Aron slapp aftur í gegnum vörn Stjörnunnar. Aron var ískaldur einn gegn Haraldi og lyfti boltanum yfir Harald og Valsmenn með heljartak á leiknum. Þeir voru ekki hættir í fyrri hálfleik og þremur mínútum eftir fjórða markið lagði Aron meistaralega upp fimmta markið fyrir Birki Má Sævarsson og hálfleiksstaðan í Garðabæ var 5-0, Val í vil. 

Stjarnan svaraði fyrir sig eftir 18 mínútur í seinni hálfleik. Sölvi Snær Guðbjargarson minnkaði muninn í 5-1 á 63. mínútu. Eftir markaveislu fyrri hálfleiks var þetta eina mark þess seinni og Valur vann með fimm mörkum gegn einu og Stjarnan tapaði sínum fyrsta deildarleik í sumar.

Í Kópavogi tók Breiðablik á móti KR. Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, sló leikjametið í efstu deild þegar flautað var til leiks en þetta var 322. leikur hans í efstu deild og sló hann Birki Kristinssyni þar með við en Óskar Örn hefur ekki misst úr leik í deildinni síðan 2015. Hans menn voru líka yfir í leikhléi en Ægir Jarl Jónasson skoraði eina mark fyrri hálfleiks þegar hann vippaði laglega yfir Anton Ara Einarsson á 10. mínútu. Óskar Örn slapp svo í gegnum vörn Blika á 84. mínútu og virtist skora í metleiknum en við nánari skoðun reyndist það vera Viktor Örn Margeirsson sem lagði boltann í eigið mark. Það gilti einu fyrir KR því þeir unnu með tveimur mörkum gegn engu.

Önnur úrslit í kvöld urðu þau að FH vann Fylki örugglega með fjórum mörkum gegn einu og HK og Víkingur gerðu 1-1 jafntefli. Staðan í deildinni er þá sú að Valur er áfram með 8 stiga forskot á FH og Stjarnan áfram í þriðja sæti. KR lyfti sér upp fyrir Breiðablik í fjórða sætið. Á botninum eru sem fyrr Fjölnir og Grótta og lengist bilið í næstu lið sífellt.