
Þriðja bylgja kórónuveirunnar farin af stað
Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Grímuskylda í háskólum og framhaldsskólum
Þrjátíu ný kórónuveirusmit greindust í gær. Helmingurinn af þeim smituðu var þegar í sóttkví. Smitum hefur fækkað síðustu tvo daga en í síðustu viku greindust meira en 70 smit. Mörg smit hafa komið upp hjá skólafólki. Nú eiga nemendur og starfsfólk í háskólum og framhaldsskólum því að vera með grímur í skólanum.
Þórólfur segir að smitin komi upp víða á landinu. Því sé erfitt að stöðva faraldurinn. Í fréttum hefur líka komið fram að mörg af smitunum tengist skemmtistöðum. Núna mega þeir ekki vera opnir.
Á fundi almannavarna var Þórólfur spurður hvort einn veitingastaður sem tengist nýju smitunum væri opinn. Hann varð undrandi og sagðist hafa haldið að staðurinn væri lokaður. Hann ætlar að kanna málið.
Áhyggjur af hvað smitin eru mörg
Alma Möller landlæknir hefur áhyggjur af því hvað það hafa greinst mörg smit undanfarna daga. Hún minnti á að það væri hægt að herða sóttvarnar-aðgerðir eins og var gert í vor. Núna eigi samt að prófa hvort það sé hægt að sleppa við að loka öllum stöðum eins og þá.
Alma segir að það sé mikið að gera á heilsugæslunni. Hún biður alla að óska ekki eftir að fara í skimun nema þeir séu með einkenni eða hafa hitt einhvern sem er smitaður. Skimun er gerð til að gá hvort fólk er með kórónuveiruna. Fólk á samt að fara til læknis ef það er veikt. Og ef fólk er með kvíða ætti það að leita sér aðstoðar eða upplýsinga um hvað það geti gert sjálft.