Settu grímuskyldu vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið

21.09.2020 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Skólum utan höfuðborgarsvæðisins er í sjálfsvald sett hvort þeir taka upp grímuskyldu. Í skólum sem eru fjarri höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, Egilsstöðum, Tröllaskaga og Ísafirði, er grímunotkun valkvæð.

Fjarnám vegna smita

Vegna smita sem greindust í Stykkishólmi og á Akranesi eru bæði Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Fjölbrautaskóli Vesturlands með fjarnám í þessari viku. Í FVA er grímuskylda í verknámi sem ekki er hægt að kenna í fjarnámi.

Grímuskylda nærri höfuðborgarsvæðinu

Grímuskylda er víða í skólum sem eru nærri höfuðborgarsvæðinu. Þar á meðal í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Suðurlands og í Menntaskóla Borgarfjarðar.

Bragi Þór Svavarsson er skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar.

„Við erum auðvitað utan höfuðborgarsvæðis en það er mikill samgangur við höfuðborgarsvæðið héðan úr Borgarfirði. Þannig við ákváðum að sýna bara frumkvæði og ábyrgð með því að fara þessa leið strax á mánudagsmorgni.“

Bragi segir að til greina hafi komið að hafa grímunotkun valkvæða.

„Já, þetta var auðvitað bara ákvörðun sem við tókum saman. Stjórnendateymi og neyðarstjórn skólans að við ætluðum að gera þetta núna. Við vitum að við vorum ekki skyldug til þess, en eftir svolitla umhugsun vildum við sýna bara frumkvæði og ábyrgð.“

Engin smit á Austurlandi og fæstir þar í sóttkví

Utan höfuðborgarsvæðisins eru 25 í einangrun og 391 í sóttkví. Þar af eru flestir í einangrun á Suðurlandi eða níu. 203 eru í sóttkví á Vesturlandi, sem er rúmlega helmingur allra á landsbyggðinni. Á Austurlandi eru engin smit og einungis fimm í sóttkví.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi