Óendanleg vögguvísa Ragnars flutt í kirkju í Mílanó

Mynd með færslu
 Mynd: Einka

Óendanleg vögguvísa Ragnars flutt í kirkju í Mílanó

21.09.2020 - 14:16

Höfundar

Ragnar Kjartansson leggur kirkju í Mílanó á Ítalíu undir verk eftir sig þar sem söngvarar skiptast á að flytja ítalska dægurlagaperlu klukkustundum saman, hvern dag í heilan mánuð. Rætt er við Ragnar í New York Times í tilefni af sýningunni.

Verkið heitir Il Cielo in Una Stanza (Himinninn í herbergi). Það var fyrst sýnt árið 2018 í listasafni Wales í Cardiff og verður nú sýnt í San Carlo al Lazzaretto kirkjunni í Mílanó frá 22. september til 25. október. Verkinu er lýst sem óendanlegri vögguvísu en þar skiptast tveir söngvarar á, klukkustund í senn, að syngja ítalska dægurlagaperlu við orgelundirleik í sex tíma hvern dag í heilan mánuð.

Ákveðið var að setja verkið upp í Mílanó vegna þeirra miklu áhrifa sem heimsfaraldurinn hefur haft á líf Ítala. Lagið sem ómar í kirkjunni næsta mánuðinn kom út árið 1960 og er eftir Gino Paoli. Ragnar Kjartansson segir það vera eins konar ástarlag þjóðarinnar í samtali við blaðamann New York Times. Texti lagsins á vel við á tímum sem þessum en þar er snert á einsemd, einangrun og að lokum samvistum fólks.

„Þetta er lag fólksins sem er aldrað í dag og hefur verið að sálast innilokað og einsamalt í herbergjum sínum,“ segir Ragnar.

 

Vegna heimsfaraldursins þurfti skipulagning sýningarinnar, áheyrnarprufur og æfingar að fara að öllu leyti fram í gegnum fjarfundabúnað. Ragnar er staddur á Íslandi og hefur að undanförnu stýrt verkefnum á heimsvettvangi í stúdíói sínu í einum af verbúðunum á Grandagarði, hann segir við blaðamann New York Times að það hafi því ekki verið nýtt fyrir honum að halda um taumana með hjálp nýjustu tækni.

Fyrst um sinn verður áhorfendum hleypt í kirkjuna og reglum um nándarmörk framfylgt. Ef faraldurinn versnar og ekki verður unnt að hleypa fólki inn er þó ekki ráðgert að blása sýninguna af, segir Massimiliano Gioni sýningarstjóri verksins. Hún haldi áfram þrátt fyrir að enginn geti sótt hana. Sýningin gæti því orðið táknræn fyrir ævarandi von, „um að einhver sé að skapa list einhvers staðar, hvort sem þú sérð hana eða ekki.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Raggi fékk bara eina töku til að fara að gráta

Myndlist

Ragnar Kjartans setur upp sápuóperu í Moskvu

Myndlist

Verk Ragnars Kjartans það besta á 21. öldinni

Myndlist

„Maður er bara: Jess!“