Lyftutónlist með Moses Hightower

Mynd: RÚV / RÚV

Lyftutónlist með Moses Hightower

21.09.2020 - 15:00

Höfundar

Geðþekka sálartríóið Moses Hightower, sem var stofnað árið 2007, hefur sent frá sér plötuna Lyftutónlist. Hljómveitin er skipuð þeim Andra Ólafssyni söngvara, bassaleikara, Magnúsi Trygvasyni Eliassen trommara og Steingrími Karli Teague hljómborðsleikara og söngvara auk þess sem en Rögnvaldur Borgþórsson hinn lausráðni spilar á gítar.

Hljómsveitin Moses Hightower gaf út sína fjórðu plötu föstudaginn 18. september. Hún ber nafnið Lyftutónlist og inniheldur sjö lög, þar á meðal lögin Stundum og Ellismell sem hafa hljómað töluvert í útvarpi, auk titillags plötunnar, sem heyrðist fyrst spilað fyrir um ári.

Platan er hljóðblönduð af tilþrifum, og að mestu tekin upp, af Styrmi Haukssyni, ýmist í fyrrum áburðarverksmiðju í Gufunesi eða í hinum þokkafulla Hljóðrita í Hafnarfirði.

Á henni heyrast, auk Andra, Magnúsar og Steingríms, hjálparkokkarnir Rögnvaldur Borgþórsson gítaristi og Magnús Jóhann Ragnarsson hljómborðsgaldramaður sem aðstoða undantekningalítið á tónleikum. Auk þess heyrist Samúel Jón Samúelsson leika á básúnu og Salóme Katrín syngja bakraddir en Pétur Oddbergur Heimisson og Helgi Hrafn Jónsson skipa karlakór ásamt hljómsveitarmeðlimum í lokalagi plötunnar.

Í vetur verður sýnd á RÚV heimildarmynd um gerð plötunnar í leikstjórn Helga Jóhannssonar og framleidd af SNARK. Í fyrstu kemur platan aðeins út rafrænt en þegar líður á haustið mun birtast vínilútgáfa og er umslagshönnun í öruggum höndum Sigríðar Ásu Júlíusdóttur sem hannað hefur öll plötuumslög sveitarinnar.

Lyftutónlist er plata vikunnar á Rás 2 og verður flutt í heild sinni ásamt kynningum sveitarinnar á tilurð lagana strax eftir tíufréttir í kvöld, hún er einnig aðgengileg í spilara hér að ofan.

Moses Hightower – Lyftutónlist