„Hvert er virði mitt ef ég er ekki alltaf vinnandi?“

Mynd: Kolbrœn ޗra Lšve / RòV

„Hvert er virði mitt ef ég er ekki alltaf vinnandi?“

21.09.2020 - 11:13

Höfundar

Sirrý Arnardóttir sendi í fyrra frá sér bókina bókina Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný og nú hefur hún skrifað sambærilega bók um hitt kynið: Þegar karlar stranda – og leiðin í land. Í bókinni rekur hún sögu ólíkra karlmanna á ýmsum aldri sem allir hafa strandað í lífinu, en gripu til aðgerða og björguðu sér.

„Karlar segja okkur frá lífi sínu og líðan. Þetta atvikaðist þannig að þegar ég var að fylgja úr vör fyrri bókinni minni var fólk að spyrja: En hvað með karla? Þá sagðist ég ætla að skrifa næstu bók um það,“ segi Sirrý. „En þá sagði fólk að karlar myndu ekki vilja segja frá líðan sína en auk þess að karlar myndu aldrei kaupa svona bók eða láta sjá sig með hana, því þeir vildu ekki sýna veikleikamerki,“ segi Sirrý. „Það fannst mér vera rót vandans. Að karlar geti ekki rætt um líðan sína, og þurfi allir að vera árangursdrifnir og algjörir sigurvegarar alltaf.“ Sirrý fór á stúfana með Virk starfsendurhæfingarsjóði og útgáfunni Veröld að safna að sér sögum frá ólíkum körlum. „Þeir eru svo sannarlega tilbúnir að tala, en er þjóðin og konur tilbúin að hlusta? Þetta eru allt sigurvegarar, margir hafa farið í gegn um Virk en allir hafa fundið leiðir í land. Breytt lífi sínu, horft inn á við, sótt sér hjálp eða tekið á móti björgunarhringjum.“

Sirrý tekur dæmi af hámenntuðum rafmagnsverkfræðingi, Pétri Guðjónssyni framkvæmdastjóra hjá Marel, sem hafi ofkeyrt sig svo í vinnu að greindarvísitalan lækkaði og minnið hvarf. „Heilinn er líffæri. Hjá honum bara krassaði heilinni því hann ofgerði sér og vann yfir sig. En hann hefur náð landi og deilir þeirri leið með okkur.“ Það er mikil breidd af vandamálum í bókinni, meðal annars eitt sem Sirrý segir falinn vanda og harm margra foreldra. „Það eru ungu mennirnir sem detta út úr skólakerfinu, hætta í starfi eða komast aldrei á vinnumarkaðinn og liggja í óvirkni heima fyrir framan tölvuna. Festast í tölvuleikjum eða sjónvarpsglápi.“ Að sögn Sirrýjar eykst hættan á þessu í ástandi eins og COVID. „Þeir sem eru á nippinu að detta í óvirkni, þetta er aldeilis tíminn til að detta fram af brúninni.“

Í bókinni er líka að finna ótal ráð frá sálfræðingum og félagsráðgjöfum sem vinna með Virk. „Hvernig hjálpar maður fólki út úr algjörri vanvirkni. Það eru lausnir. Þetta eru allt menn sem eru sigurvegarar, eru að blómstra í dag, og eru tilbúnir að deila með okkur hvernig þeir komust þangað.“ Þá tekur Sirrý dæmi að húsasmiði sem lenti í mótorhjólaslysi sem þurfti að læra að lifa án þess að sjálfsvirði hans tengdist eingöngu vinnunni. „Þá þarf að finna lífsfyllingu, hvert er virði mitt ef ég er ekki alltaf vinnandi, hver er tilgangur lífsins þá?“

Hulda Geirsdóttir og Sigmar Guðmundsson ræddu við Sirrý Arnardóttur í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Margvísleg bókmenntaverkefni styrkt

Menningarefni

Bækur rjúka út í samkomubanni

Stjórnmál

Heklar teppi til að ná bata frá kulnun

Innlent

Átak til að auka vellíðan í vinnunni