Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Grímur í skólum áþreifanlegt merki um ástandið

21.09.2020 - 16:21
Mynd: Anna Kristín Jónsdóttir / RÚV
Það var heldur rólegt í kringum Menntaskólann við Hamrahlíð í morgun. Þessa vikuna mæta nemendur eftir hádegi í þá tíma sem þeir sækja þangað en eru heima í tölvunni á morgnana. Allt skólastarf hefur auðvitað verið með öðrum brag en vant er frá því í vetur en frá og með deginum í dag þurfa allir, bæði nemendur og starfsfólk að setja upp grímur í skólanum og ekki er vitað hve lengi sá háttur verður hafður á.

Sóttvarnirnar hafa haft mikil áhrif á skólastarfið en líka á félagsstarfið sem hefur orðið fyrir barðinu á veirunni þó að ýmissa leiða hafi verið leitað. Steinn Jóhannsson rektor, segir að vissulega séu aðstæðurnar skrítnar; og menn reyni bara að bregðast við og gera áætlanir til nokkurra vikna í senn.

Allir fá grímu við innganginn

Í dag réttu starfsmenn öllum nemendurm grímu við innganga. Bóas Valdórsson, sálfræðingur við MH, tekur undir það að grímurnar geri ástandið og sóttvarnirnar mjög sýnilegar. Nemendur séu meðvitaðir um að gera það sem þarf til að komast í skólann. Hann segir að ungt fólk sé úrræðagott og finni leiðir til að komast í gegnum þetta. En auðvitað skipti nánd alla máli og eins og kringumstæður séu nú fari menn á mis við tilviljanakennd samskipti sem séu mjög mikilvæg þegar krakkar eru að mynda vináttu. 

Hugurinn tvístrast heima

Þórunn Guðmundsdóttir nemandi á þriðja ári sat inn á bókasafni og pældi í gegnum mikinn líffræðidoðrant. Hún hefur ekki farið varhluta af áhrifunum á skóla- og félagsstarfið. Þórunn segir reyndar að kannski sé auðveldara fyrir þá sem eru komnir vel á veg og þekkja skólann að takast á við þetta. Eins fannst henni auðveldara að ljúka áföngum í vor sem höfðu byrjað í staðkennslu en byrja í fjarnámi. Hún var komin inn á bókasafn að læra því henni finnst erfiðara að einbeita sér heima, þar vill hugurinn leita í allar áttir.