Gögn gefa til kynna umfangsmikið peningaþvætti

21.09.2020 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Verð á hlutabréfum í mörgum af stærstu bönkum heims hefur lækkað verulega í morgun eftir að farið var að birta upplýsingar úr gögnum sem lekið var frá efnahagsbrotadeild bandaríska fjálmálaráðuneytisins. Þau gefa til kynna að umfangsmikið peningaþvætti hafi viðgengist um árabil í gegnum marga banka að því er virðist með vitneskju hátt settra starfsmanna.

Bandaríski fréttavefurinn BuzzFeed News fékk gögnin í hendur í fyrra og deildi þeim með Alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna. Hundruð fréttamanna á þeirra vegum hafa rannsakað gögnin sem eru frá árunum 1999-2017 og voru fyrstu upplýsingar úr þeim birtar í gær.

Þau eru kölluð FinCEN-skjölin enda komin  frá Financial Crimes Enforcement Network, sem er efnahagsbrotadeild bandaríska fjármálaráðuneytisins. Gögnin eru byggð á skýrslum banka og fjármálastofnana til efnahagsbrotadeildarinnar um grunsamlegt athæfi sem þrátt fyrir það virðist hafa verið látið nær afskiptalaust. 

BuzzFeed News nefnir fjölda banka sem komi fram í gögnunum og tiltekur sérstaklega fimm banka þar sem peningaþvætti hafi viðgengist, - JP Morgan Chase, HSBC, Standard Chartered, Deutsche Bank og Bank of New York Mellon.

Þá eru einnig nefndir einstaklingar og fyrirtæki í ýmsum löndum. Grunsamlegar peningafærslur hljóði upp á meira en tvær trilljónir Bandaríkjadala. BuzzFeed News gagnrýnir auk þess Bandaríkjastjórn fyrir að knýja ekki bankana til að stöðva þessa starfsemi. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi