Gleymdi yfir hundrað geisladiskum á bensínstöð

Mynd: Frédérique Voisin-Demery / Flickr

Gleymdi yfir hundrað geisladiskum á bensínstöð

21.09.2020 - 13:52

Höfundar

Ægir Þór Eysteinsson heldur enn í vonina um að endurheimta trékassa sem innihélt rúmlega 100 af uppáhaldsgeisladiskunum hans. Ægir skildi kassann óvart eftir á bensínstöð áður en hann hélt af stað í langferð með vinum sínum. Þeir urðu því að vera án uppáhaldstónlistarinnar sinnar í ferðinni.

Fyrir tíma streymisveitna gat verið vandasamt að velja tónlist fyrir langar bílferðir þar sem einu möguleikarnir voru að treysta á lagalista útvarpsstöðva eða taka góða geisladiska með í ferðalagið. Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi hjá Atlantshafsbandalaginu, þekkir þessa valmöguleika vel. Hann var gestur í þættinum Lagalistanum og rifjaði þar upp þegar hann týndi geisladiskunum. 

Sumarið 1997 fékk Ægir Þór nýlegan BMW bíl foreldra sinna lánaðan til að fara á Humarhátið á Höfn í Hornafirði með vinum sínum. Ægir hafði þá unnið í plötubúðinni Skífunni um tíma og átti orðið mjög gott safn af geisladiskum. Til að undirbúa ferðina sem best ákvað hann að taka saman rúmlega 100 geisladiska sem voru í uppáhaldi hjá honum og setti þá í trékassa sem hann ætlaði að taka með í ferðina. Hann fór á bílnum í vinnuna og þegar að vinnudagurinn var búinn keyrði hann að næstu bensínstöð til að þrífa bílinn og hafa hann sem flottastan fyrir ferðina. „Ég byrja á því að þvo hann og ætla svo að ryksuga bílinn og tek koffortið úr aftursætinu, set það við hliðina á ryksugunni, ryksuga bílinn og keyri í burtu,” segir Ægir. 

Þegar Ægir ætlaði að skipta um disk í geislaspilaranum áttaði hann sig á því að kassinn með öllum diskunum var horfinn úr aftursætinu. „Ég fékk bara kaldan svita, ég bruna á bensínstöðina og kassinn var horfinn,” segir Ægir sem varð eyðilagður. Hann gafst þó ekki upp og hringdi til að mynda á útvarpsstöðina X-977 og bað um að auglýst yrði eftir kassanum. Þar var honum sagt að líklega myndu fáir skila slíkum gersemum enda áætlar Ægir að virði geisladiskanna hafi verið í kringum hálfa milljón. Hann er þó ekki búinn að gefa upp alla von og segist enn þá vilja fá kassann til baka. 

Lagalistinn er nýr þáttur á dagskrá Rásar 2 alla sunnudagsmorgna. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í Spilaranum.