
Framsókn og Austurlisti vilja helst starfa með D-lista
Sjálfstæðisflokkurinn fékk flest atkvæði í kosningum á laugardag og fjóra menn kjörna í sveitarstjórn. Tveimur prósentum munaði á fylgi Sjálfstæðisflokks og Austurlista sem fékk þrjá menn. Framsókn náði tveimur mönnum og Vinstri græn og Miðflokkur fengu sinn fulltrúa hvor.
Ákveða líklega í dag við hverja verði rætt fyrst
Sjálfstæðismenn eru því í lykilstöðu að mynda tveggja flokka meirihluta, annað hvort með Austurlista eða Framsókn. Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðismanna, segir þó engar formlegar viðræður hafnar. Þau séu enn að ráða ráðum sínum og ræða við baklandið um næstu skref. Ekki hafi verið ákveðið við hvaða lista verði rætt fyrst, en hann býst við að sú ákvörðun verði tekin í dag og formlegar viðræður gætu þá hafist á morgun.
Samstarf við Sjálfstæðisflokk fyrsti kostur
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks, segir menn eitthvað hafa skipst á símtölum, en ekkert á formlegum nótum. Þau vilji fyrst skoða samstarf við Sjálfstæðisflokk. Flokkarnir hafi átt í samstarfi í sveitarstjórn á Fljótsdalshéraði og gengið vel.
Segir íbúa hafa sent skýr skilaboð í kosningunum
Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans segist að samstarf við Sjálfstæðisflokk sé þeirra fyrsti kostur og hún hafi þegar skýrt oddvita Sjálfstæðismanna frá því. Hún segir íbúa hafa sent skýr skilaboð í kosningunum og samstarf þessarra tveggja flokka yrði því sterkasti merihlutinn.