Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Forsetinn hvetur til varkárni í nýrri bylgju faraldurs

21.09.2020 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson segir að nú sem aldrei fyrr sé brýnt að hver og einn hugi að persónulegum sóttvörnum, þvoi sér um hendur, haldi fjarlægð og fylgi tilmælum yfirvalda. Bestu sóttvarnirnar byrji hjá manni sjálfum.

Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu forsetans á Facebook síðu hans. Hann segir að þriðja bylgja faraldursins sé hafin eftir að smitum fjölgaði hratt í seinustu viku. 

„Í vor sýndum við hvað í okkur býr, að við getum staðið saman þegar á reynir, okkur sjálfum og samfélaginu öllu til heilla. Við skulum reyna að halda okkar daglega lífi í venjulegum skorðum eftir því sem tök eru á, sækja mannamót eins og heimilt er. Verum samt varkár og tökum tillit til annarra.“ segir Guðni.

Aukin viðbúnaður vegna faraldursins er forsetanum hugleikin auk annarra mála. Heilbrigðisyfirvöld óskuðu í morgun eftir sjálfboðaliðum til að slást í hóp bakvarðasveitar heilbrigðisþjónustunnar.

„Í nýrri viku berast uggvænlegar fregnir af fjölgun veirusmita með öllu sem því fylgir, fjölda fólks í sóttkví og alls kyns raski í samfélaginu. Í ýmsum skólum og víðar er grímuskylda nú við lýði. Nú er líka beðið um sérhæft lið í bakvarðasveitir rétt eins og í vor. Þá sýndum við þann samtakamátt sem reyndist svo vel. Enn vinna stjórnvöld framar öllu að því sinna frumskyldu sinni, að tryggja líf og heilsu landsmanna. Ég leyfi mér að endurtaka að saman getum við öll orðið að liði með því að huga að eigin sóttvörnum.“  segir Guðni.

Jafnframt fór hann um víðan völl þar sem hann sagði frá verkefnum sínum undanfarna daga, m.a. vígsla nýs knattspyrnuvallar ÍR, móttaka nýs sendiherra Evrópusambandsins, heimsóknir til Bessastaða, söfnun á birkifræði, skemmdir á varnargörðum vegna óveðurs, listasýningar,  og fleira. 

Pistil forseta má sjá á Facebook-síðu Forseta Íslands hér.  

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV