Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert samkomulag um refsiaðgerðir gegn Hvíta-Rússlandi

21.09.2020 - 18:43
epa08686248 Belarusian opposition leader Sviatlana Tsikhanouskaya speaks to the members of the European Parliament's Foreign Affairs committee, at the EU Parliament in Brussels, Belgium, 21 September 2020.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja komust ekki að samkomulagi um að beita Hvíta-Rússland refsiaðgerðum vegna stjórnmálakreppunnar þar í landi. Kýpverjar neituðu að fallast á þær nema gripið yrði til aðgerða gagnvart Tyrkjum vegna gasleitar þeirra á austanverðu Miðjarðarhafi.

Svetlana Tikanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, ræddi í morgun við Josep Borrell, utanríkismálastjóra ESB, og utanríkisráðherra aðildarríkjanna um pólitískt ástand í landinu í kjölfar umdeildra forsetakosninga í síðasta mánuði.

Fyrir ráðherrafundinum lá að samþykkja aðgerðir gegn tugum hvítrússneskra embættismanna sem hafa gengið harðast fram gegn stjórnarandstæðingum, en þeir síðarnefndu saka Alexander Lúkasjenkó forseta um að hafa tryggt sér embættið með kosningasvikum.

Nikos Christo-doulides, utanríkisráðherra Kýpur, neitaði hins vegar að fallast á aðgerðirnar nema Tyrkjum yrði einnig refsað fyrir leit þeirra að gasi á umdeildu hafsvæði á Miðjarðarhafi. Á það var ekki fallist.

Ýmsir ráðherrar kunna Kýpverjum litlar þakkir fyrir, þeirra á meðal Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur. Hann sagði í viðtali við danska fjölmiðla að vissulega mætti finna margt að framferði Tyrkja, en það gengi ekki að taka málefni Hvíta-Rússlands í gíslingu með því að blanda þessum tveimur óskyldu málum saman.