„Ég á alveg fyrir mjólkursopanum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég á alveg fyrir mjólkursopanum“

21.09.2020 - 12:28

Höfundar

„Svo lengi sem einhver vill fá mig hef ég mætt á staðinn,“ segir Ingólfur Þórarinsson sem er betur þekktur sem Ingó Veðurguð. Hann segist enn vera bókaður á gigg þrátt fyrir heimsfaraldur og nú er hann að stýra nýjum tónleikaþætti á Stöð 2.

Á föstudag hóf göngu sína nýr tónlistarþáttur á Stöð 2 með Ingó Veðurguð tónlistarmann í stafni. Þættirnir nefnast Í kvöld er gigg, eftir vinsælu lagi Ingós sem kom út fyrr á árinu. Markmiðið með þáttunum er að lyfta lund og létta geð landsmanna í heimsfaraldri og leyfa partý- og tónleikaþyrstum Íslendingum að fá innsýn í það sem líkist eftirpartýum tónlistarmanna eftir tónleikahald. „Þegar venjulega giggið er búið fer tónlistarfólkið baksviðs og þá er gaman. Við erum búin að losa okkur við áhorfendur í salnum, búin að skemmta og segja alla sömu brandarana og þá er kafað dýpra,“ segir Ingó í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2. Þættirnir verða sjö til að byrja með og fór sá fyrsti í loftið á föstudaginn. Þá voru Jóhanna Guðrún og Sverrir Bergmann gestir Ingós. Ásamt tónlistarmönnum sem heimsækja Ingó í hverjum þætti verða lagahöfundar á svæðinu og einvalalið hljóðfæraleikara sem Ingó valdi saman.

Hugmyndin kom upphaflega frá Jóni Gunnari Geirdal athafnamanni sem datt í hug að gera þátt í anda þáttanna Heima með Helga, með Helga Björnssyni sem notið hafa mikilla vinsælda. Ingó segir að þátturinn hafi sérstöðu því þetta sé ekki enn einn tónleikaþátturinn. Þarna sé stemningin heimilisleg og tónlistarfólkinu líði vel. „Við erum bara þarna og vitum varla af myndavélunum,“ segir hann.

En þó Ingó sé í kjöraðstæðum í þáttunum og fái að stjórna því hverja hann fær í heimsókn og hafi fengið vini sína til að sjá um hljóðfæraleik segist hann alls ekki hafa stokkið á hugmyndina um leið og hún var borin á borð. „Ég sagði nei við þessum þætti svona tvö hundruð sinnum,“ segir hann. „Svo sagði ég bara hvað ég vildi fá borgað fyrir þetta og þá kom þetta í gegn.“ En nú vill hann strax fara í að gera aðra seríu. „Við eigum svo mikið af frábærum lagahöfundum að sjö þættir eru alls ekki nóg.“

Vinsældir lagsins Í kvöld er gigg komu Ingó sjálfum á óvart en lagið hefur verið í stöðugri spilun síðan það kom út og fallið í kramið hjá öllum aldurshópum. „Ég bjóst engan veginn við þessu. Sumt heldur maður að verði vinsælt en það verður það ekki og svo er annað eins og þetta,“ segir Ingó. Það var bróðir hans sem hvatti hann til að gefa lagið út og Ingó segist að mestu leyti hafa gert það fyrir hann. „Svo verður þetta allt í einu rosa hittari. Ég held það sé kannski því það er smá sannleikur í þessu,“ segir Ingó sem vísar til texta lagsins sem fjallar um skuggahliðar skemmtanabransans. Það hefur svo sannarlega harðnað í ári hjá skemmtikröftum síðustu mánuði þar sem hver viðburðiurinn á fætur öðrum er blásinn af vegna samkomutakmarkana og smithættu. Ingó segir þó að það væsi ekki um sig. „Ég er heppinn að því leyti að mín verkefni hafa gjarnan verið fyrir 50-60 manns og ég er enn bókaður. Ég á enn fyrir mjólkursopanum, það er ekkert þannig vesen. Ég fæ mín gigg,“ segir hann. „Stundum er ég að spila gigg fyrir ellefu og mér er alveg sama. Svo lengi sem einhver vill fá mig hef ég mætt á staðinn sko,“ segir hann að lokum.

Rætt var við Ingó Veðurguð í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Tónlist

Þjóðhátíðarlagið 2020: Takk fyrir mig

Tónlist

Hræðilegt að vera par í leiklistarskólanum