Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eftir COVID: Hármissir, ógleði og þokukenndur heili

21.09.2020 - 14:41
Mynd: RÚV / RÚV
Rósa Björk Gunnarsdóttir og Margrét Gauja Magnúsdóttir stýra Facebook-hópnum „Við fengum COVID-19“ sem telur um 800 meðlimi. Þar tjá margir sig um erfið eftirköst og afleiðingar sjúkdómsins, jafnvel þótt margir mánuðir séu liðnir síðan þau veiktust.

Rósa Björk segir hópinn fyrst og fremst ætlaðan fyrir þá sem hafa smitast af COVID til að deila reynslusögum, en einnig aðstandendur sjúklinga. „Svo höfum við samþykkt líka að hleypa inn heilbrigðisstarfsfólki, læknum og hjúkrunarfræðingum, sem fá að vera þarna til að njósna.“ Í dag eru sex mánuðir síðan að Margrét Gauja fékk sín fyrstu einkenni en hún var greind með smit 26. mars. „Ég fékk vírusinn heiftarlega í magann og eftir á að hyggja í heilann,“ segir Margrét Gauja, „en lungun í mér sluppu.“ Hún var í einangrun í fjórar vikur en lasin og frá vinnu í fjóra mánuði. „Ég byrjaði að vinna núna eftir verslunarmannahelgi og það tók hressilega í.“ Hún finnur enn þá verulega fyrir lasleika vegna veirunnar.  

„Ég vakna á hverjum einasta degi og tek stöðumat á ástandinu,“ segi Margrét Gauja. „September var búinn að vera mjög góður, en á miðvikudaginn í síðustu viku, ég veit ekkert hvort ég gerði eitthvað til að triggera það, þá vaknaði ég blússandi veik.“ Hún var með hita og örmagna þannig hún komst ekki fram úr rúminu. „Það riðar allt, ef ég hreyfi hausinn hratt fæ ég flökurleika. Hausverkur, hendurnar á mér eru dofnar þannig ég missi hluti. Þetta eru ógeðsleg köst og mér líður mjög illa. Það eina sem er í boði er að taka alls konar verkjalyf, líka að taka fenegan ofnæmistöflur, og svo að sofa.“ Hún hafi farið í vinnuna en kom svo heim í hádeginu og svaf næstum sólarhring, var enn slæm á fimmtudeginum en orðin góð á föstudag. Í sumar fór hún þrisvar sinnum útilegu og fékk alltaf kast eftir á og var fimm daga að jafna sig.

Margrét Gauja fór til heimilislæknisins síns í ágúst alveg uppgefin á þessum köstum. „Maðurinn minn kom með mér, ég vildi hafa hann með sem stuðning því ég vildi ekki vera afskrifuð sem enn ein histeríska kellingin, þá þarf maður yfirleitt að taka miðaldra karlmann með sér í svona viðtöl.“ Hún var send í blóðprufur og heilasegulómun en ekkert kom út úr því. Hún hefur verið hjá sjúkraþjálfa og farið til taugalæknis sem er hluti af alþjóðlegu samstarfi á vegum WHO um eftirköst COVID. „Hann sagði að það væri í raun ekkert annað í boði en að lifa sem stofuplanta.“

Rósa Björk veiktist á svipuðum tíma, um miðjan mars, og fékk mikinn hita, auk þess sem maðurinn hennar og sonur veiktust líka, en hún var í 22 daga í einangrun. „Á sjöunda, áttunda degi fer ég að fá þyngsli fyrir lungun, og þá var ég hrædd. En síðan lagaðist það.“ Eftir þessa 22 daga hélt hún að allt væri yfirstaðið en lengi eftir fann hún fyrir doða í hendinni, sem er mjög algengt meðal þeirra sem tjá sig í Facebook-hópnum. „Svo þokukenndur heili oft. Síðan fór ég að missa hárið alveg svakalega, nokkrum mánuðum eftir að ég veiktist. Ég fór að missa það og ákvað að klippa það stutt, konurnar í hópnum hafa talað mikið um þetta.“

Að sögnu Rósu og Margrétar er enginn sérstakur staður í heilbrigðiskerfinu sem hægt er að leita til með eftirköstin af COVID. „Við fengum þau skilaboð að hver ætti bara að leita til síns heimilislæknis. En þeir vita ekkert meira en við. Ég hef alveg fengið flensu, en ég hef ekki dílað við þetta eftir flensu,“ segir Margrét Gauja. Að sögn Rósu er vakning í þessa veru að verða erlendis. „Ég veit að heilbrigðisyfirvöld á Bretlandi eru að búa til heildræna stefnu til að grípa fólk sem glímir við þetta.“ Þær telja að allt að þriðjungur af þeim 800 sem eru í Facebook-hópnum finni fyrir sterkum eftirköstum. „Ég vil líka benda þeim sem smitast á hópinn á Facebook því hann hefur oft bjargað minni geðheilsu,“ segir Margrét Gauja. „Ég vil líka taka fram að ég veiktist ekkert rosalega mikið, eftirköstin voru miklu erfiðari.“

Gunnar Hansson og Guðrún Gunnarsdóttir ræddu við Margréti Gauju og Rósu Björk Gunnarsdóttur í Mannlega þættinum.