Að vera Karen

Mynd: RÚV / RÚV

Að vera Karen

21.09.2020 - 09:02

Höfundar

„Á tímum samfélagsmiðla er kannski enn meiri ábyrgð fólgin í því að bera nafn. Sérstaklega ef það er algengt, því þá gætirðu flækt lífið fyrir svo ótrúlega mörgum ef þú ferð á flug ranglætisvængjanna,“ segir pistlahöfundur Lestarinnar um það nýlega fyrirbæri að nota mannanöfn til að lýsa persónueinkennum eða týpu fólks.

Ragnheiður Harpa Haraldsdóttir skrifar:

Á fallegum sumardegi báru stoltir foreldrar stúlkubarn sitt til skírnar. Þau höfðu hugsað þetta lengi. Nafnið var fallegt. Það var alþjóðlegt, það rímaði ekkert við það og erfitt var að uppnefna með því. Skammstöfunin var ekki óheppileg og þau þekktu enga einstaklinga, hvorki sameiginlega, né í sundur, sem skemmdu fyrir þeim nafnið. Og hvað skal barnið heita? spurði presturinn.

Karen svöruðu foreldrarnir.

Undanfarna mánuði hefur nafnið Karen, þó sérstaklega erlendis, orðið einhverskonar samnefnari fyrir hvítar forréttindablindar konur á miðjum aldri sem sýna samborgurum sínum virðingarleysi og yfirgang. Karen er í dag ekki lengur bara sérnafn sem við gefum börnum okkur heldur næstum lýsingaorð og er allt í einu til í fleirtölu og merkir eitthvað neikvætt. Ef kvenmannsnafnið sjálft er hinsvegar krufið til mergjar þá er það dregið af Katrín og merkir hin hreina. Þeir sem ganga enn lengra, tengja það jafnvel við verndardýrling heimspekinnar.

Sú tenging kann að hljóma kaldhæðnislega í því samhengi sem við þekkjum nafnið í dag. Að vera Karen, er kannski einmitt að vera gagnstæða spekings. Samfélagsmiðlar hafa að geyma þúsundir ef ekki milljónir myndbanda þar sem konur, sem oftast nær eru í einhverskonar rifrildisham, tæta í sig aðra einstaklinga og tala um rétt sinn til að ganga ekki með grímu eða mómæla Black Lives Matter barráttunni. Fæstar heita þær þó Karen, en með þessu háttalagi sínu verða þær samt einhvernveginn, Karen.

Með öllu er óvíst hver hafi verið hin eiginlega fyrsta Karen. En í raun held ég að það hafi ekki endilega verið einhver ein kona. Hin eina og sanna Karen sem hóf þetta allt saman. Þetta er frekar einhverskonar samheitari yfir kynslóð sem deilir bakgrunni, skoðunum og forréttindum.

En ætlunin með þessum pistli mínum er nú ekki að úthúða nafninu Karen, alls ekki. Ég þekki margar frábærar konur sem heita Karen og kenni í raun sáran í brjóst um þær að bera þetta nafn akkúrat þessa stundina. En ég segi einmitt, þessa stundina, því svona gleymist og þetta er alls ekki í fyrsti skipti sem mannanöfn eru notuð til þess að lýsa persónueinkennum eða týpu einstaklings. 

Í lok nóvember 2017 fór svipuð atburðarrás af stað, en í það skiptið einskorðaðist hún við Ísland. Í kjölfar Kastljós viðtals við íslenskar stjórnmálakonur, sem tekið höfðu þátt í yfirlýsingu um kynferðislegt áreiti og ofbeldi innan stjórnmála, fór Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, inn á Fésbókina sína og skrifaði færslu þar sem hann gangrýndi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi þingkonu, fyrir prófílmynd sem hún hafði á sinni persónulegu Fésbókar síðu. Í ummælum sínum hvatti Ragnar Áslaugu til að huga að ímynd sinni og íaði að tengslum milli umræddar kynferðislegrar áreitni og myndarinnar. Sú umvöndun skilaði sér þó líklega ekki eins og Ragnar hafði hugsað sér og þóttu skilaboð hans einmitt kristalla vandann sem konur í stjórnmálum standa frammi fyrir. Notendur Twitter tóku upp myllumerkið #ekkiveraRagnar og fór það um netheima eins og eldur í sinu.

En þó að við, eða flest okkar sem þekkja til málsins, vitum um hvaða Ragnar er átt við með þessu myllumerki, þýðir það í raun svo miklu meira. Það er enginn að biðja fólk um að verða ekki sjálfur Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, það er frekar verið að biðja fólk um að hugsa ekki eins og týpan sem lætur svona hluti útúr sér. Ragnar sjálfur var einungis víti til varnar, veggspjaldsdrengur og holdgerving karllægra dómstóla en hugrenningartengslin hafa verið sköpuð, og við skiljum hvað það þýðir að vera Ragnar eða að vera Karen. 

Eins og fram hefur komið er þetta alls ekkert nýtt og ætla ég að leyfa mér að fullyrða að þetta verður heldur ekki í síðasta skiptið sem nafn er tengt við manngerð. Þannig fannst ömmu minni heitinni með eindæmum sérstakt þegar systir mín ákvað að skíra dóttur sína Hallgerði „líkt og alræmda langbrók í Njálssögu?“. Ég veit ekki hvort hún hélt að nafnið myndi automatískt breyta saklausa barninu í hefnigjarnt skapofsadýr, þá sérstaklega eigandi þessi dásamlegu ljúfmenni sem foreldra, en eitthvað var það og þó sumir hafi nú í seinni tíð séð Hallgerði í nýju ljósi og jafnvel tengt nafnið við styrk, dug, hugfestu og kvennskörung, þá mun kynslóð ömmu alltaf sjá Hallgerði og þar af leiðandi nafn hennar sem merki meins. 

Nýjasta dæmið er svo tilraun Twitterverja til þess að koma myllumerkinu #ekkiveraIngibjörg á flug. Þar var átt við Ingibjörgu Halldórsdóttur, íbúa við Skaftahlíð í Reykjavík sem hafði ítrekað kvartað yfir þeirri „ólýsanlegu matröð“ sem sparkvöllurinn við Ísaksskóla hefur verið fyrir henni. Linnulausar kvartanir hennar og símtöl í lögreglu skiluðu því loks að völlurinn var fjarlægður en þegar börnin héldu aftur til skóla eftir sumarfrí og sáu tómt svæði þar sem áður hafði verið þeirra vinsælasta afþreying, brustu þau mörg í grát. Þeir sem voru ósammála Ingibjörgu bentu á jákvæðar hliðar útiveru og hreyfingar barna sem stöðugt er þrengt að „á sama tíma sé kvartað yfir tölvunotkun og inniveru“. Einhverjir lögðust í djúpa rannsóknarvinnu og fundu út allt sem hægt var um Ingibjörgu og fjölskyldu hennar, aðrir gerðu víst dyraöt. 

En það sem kannski virkilega var málið hér og ástæða þess að „Ingibjörg“ passaði fyrir þessa lýsingu er sú að Ingibjörg er eldra nafn á Íslandi. Það er nafn, eins og Karen í Bandaríkjunum, sem við þekkjum hjá eldri kynslóðum. Kynslóðum, sem við sem yngri erum, tengjum kannski ekki beint við fordómaleysi eða uppfærðan þankagang.

En hverjar eru raunverulegar afleiðingar þess að persónugera nöfn? Samkvæmt Íslendingabók hafa nú þegar sex stúlkur fengið nafnið Karen það sem af er ári og einungis var tekin pása á notkun nafnsins Ragnars í mánuð eftir allt það fíaskó. Það virðist ekki taka nöfnin úr umferð en hver veit, kannski fékk lítil framtíðar Karen nýtt nafn og lítill Ragnar heitir nú Jón.

Að því sögðu, velti ég fyrir mér, hver verður næstur? Það er örugglega rosalegt að vakna einn daginn og átta sig á því að manni hafi einhvernveginn verið slaufað, sé „cancelled“, eins og það heitir á ensku. Þú ert komin í skammarkrókinn en samt ekki þú beint, bara nafnið þitt, þitt helsta kennileiti. Á tímum samfélagsmiðla er kannski enn meiri ábyrgð fólgin í því að bera nafn. Sérstaklega ef það er algengt, því þá gætirðu flækt lífið fyrir svo ótrúlega mörgum ef þú ferð á flug ranglætisvængjanna. Svo ég lýk þessum pistli með varnaðarorðum, ef þú ætlar að fara að haga þér eins og fífl, ættirðu kannski, bara svona af tillitsemi við nöfnur og nafna, að heyra í mannanafnanefnd og fá eitthvað alveg einstakt í gegn.

Tengdar fréttir

Pistlar

Smáspekileg tengsl heimspeki og hönnunar

Kvikmyndir

Kvikmyndir íslenskra kvenna ekki bara „kvenlegar“

Pistlar

Sögu mannkyns verður ekki komið fyrir í excelskjali

Pistlar

Andfýla borgarinnar minnir á mikilvægi fjallaloftsins