175 í sóttkví á Akranesi eftir að hafa farið í ræktina

21.09.2020 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
175 eru í sóttkví á Akranesi eftir að smitaður einstaklingur fór í líkamsræktarsalinn á Jaðarsbökkum á þriðjudag í síðustu viku. Líkamsræktarstöðin er nú lokuð eftir að annar smitaður iðkandi kom þar inn á föstudag.

Iðkendur beðnir um að hafa samband og skrá sig

Allir sem sóttu ræktina á Jaðarsbökkum á þriðjudaginn í síðustu viku þurftu að fara í sóttkví eftir að iðkandi reyndist smitaður af COVID-19. Þá var fólk beðið um að hafa samband við Guðmundu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Íþróttabandalags Akraness og skrá sig í sóttkví. Hún hafði þá milligöngu um upplýsingagjöf til rakningateymis Almannavarna.

„Við sátum tvær og ég svaraði símanum og skráði niður og önnur svaraði tölvupósti. Það var alveg frábært hvað allir tóku vel við sér og skráðu sig inn. Allir voru jákvæðir og fannst þetta bara ekkert mál. Bara „þetta er mín ábyrgð og ég ætla að taka á henni“.“

Hún segir að þessi hópur eigi að fara í skimun á morgun og þá komi í ljós hvort einhver hafi smitast við að fara í líkamsræktarstöðina. Einhverjir hafi farið í sýnatöku um helgina en niðurstöður þaðan verið neikvæðar.

Annar smitaður iðkandi kom á föstudag

Á föstudag kom öðru sinni smitaður einstaklingur inn á Jaðarsbakka og sótti þar tíma snemma um morguninn. Guðmunda segir að strax hefði verið látið vita af því og listi fenginn yfir þá sem voru í tíma með viðkomandi. Smitrakningateymi Almannavarna sér þó alfarið um upplýsingaöflun í þessu tilviki.

Þreksalir ÍA á Jaðarsbökkum eru nú lokaðir vegna þessa og verða það út vikuna. Enn er þó opið í sund og íþróttasalur sem er notaður í kennslu fyrir grunnskólabörn enn í notkun.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi