Vonar að þreifingar verði formlegar á morgun

20.09.2020 - 20:29
Sjálfstæðismenn eru í lykilstöðu um myndun meirihluta eftir sveitarstjórnarkosningar í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Oddviti þeirra vonar að það skýrist á morgun hvort teknar verða upp viðræður við Framsókn eða Austurlistann. 

Íbúar í sameinuðu sveitarfélagi greiddu atkvæði í gær, bæði til sveitarstjórnar og fjögurra heimastjórna en kjörsókn var aðeins 63%. Öll atkvæði voru komin í hús upp úr ellefu, talningu lauk fljótlega eftir miðnætti og voru úrslit tilkynnt um klukkan hálf eitt í nótt. Sjálfstæðisflokkur fékk flest atkvæði og fjóra menn kjörna. Austurlistinn þrjá, Framsókn tvo og VG og Miðflokkur einn hvort framboð.

Sjálfstæðismenn eru því í lykilstöðu til að mynda tveggja flokka meirihluta og hittust á fundi á kosningaskrifstofu sinni á Egilsstöðum eftir hádegið. 

„Út úr fundinum í dag kom ekki annað en það að við hittum baklandið í flokknum hér á svæðinu og við vorum bara að ráða ráðum okkar og leggja drög á næstu skerfum. Ég hefði helst kosið að vinna þetta fljótt og vel og ég á von á því að þessar þreifingar verði með formlegri hætti strax á morgun,“ sagði Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks að fundi loknum.

Oddvitar bæði Framsóknar og Austurlistans hafa lýst yfir vilja til að mynda meirihluta með sjálfstæðismönnum. Austurlistinn fékk litlu minna fylgi en Sjálfstæðisflokkur. 

„Þetta er náttúrlega stórkostlegur árangur og við erum ofsalega glöð þó að við höfum sannarlega stefnt á fjóra menn en við náðum þremur mönnum og það munar tveimur prósentum þrátt fyrir að við fengum ekki fjármagn frá flokkunum og nutum ekki stuðnings frá þingmönnum og ráðherrum sem voru duglegir að koma hér í aðdraganda kosninga,“ segir Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi